Grindavík passaði að KA myndi ekki stinga af á toppnum í Inkasso-deild karla í fótbolta í kvöld en Suðurnesjaliðið kom til baka eftir að lenda 2-0 undir og náði í eitt stig.
Króatinn Juraj Grizelj kom KA í 1-0 strax á fjórðu mínútu og útlitið var ansi gott fyrir norðanmenn þegar Hallgrímur Mar Steingrímsson tvöfaldaði forskotið fyrir gestina í Grindavík á markamínútunni sjálfri, 2-0.
Fransico Cruz minnkaði muninn fyrir Grindavík, 2-1, eftir tæpar tvær mínútur í seinni hálfleiknum og það var svo bakvörðurinn sókndjarfi, Jósef Kristinn Jósefsson, sem jafnaði metin fyrir heimamenn átta mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma. Lokatölur, 2-2.
Frábær endurkoma hjá Grindavík sem vann Þór, 5-0, í síðustu umferð. Liðið var að gera sitt þriðja jafntefli í síðustu fjórum leikjum og er í þriðja sæti með 18 stig, stigi frá Þór í öðru sæti og fimm stigum frá toppliði KA.
KA-menn héldu toppsætinu þrátt fyrir að missa sigurinn frá sér. Með þremur stigum hefði liðið sama og stungið af á toppnum en Grindvíkingar héldu spennu í toppbaráttunni með því að binda endi á fjögurra leikja sigurgöngu KA. Norðanmenn eru eftir sem áður ósigraðir í síðustu sjö leikjum.
KA er með 23 stig á toppnum, Þór 19 stig í öðru sæti og Grindavík 18 í því þriðja. Einum leik er ólokið í kvöld en það er Leiknisslagurinn í Breiðholti.
Sveinn Aron enn á skotskónum
HK var hársbreidd frá gríðarlega mikilvægum sigri í botnbaráttu Inkasso-deildarinnar í kvöld þegar liðið mætti Huginn frá Seyðisfirði í Kórnum. Liðin skildu jöfn, 1-1.
Sveinn Aron Guðjohnsen, sonur Eiðs Smára, skoraði fyrir HK á 42. mínútu leiksins. HK er á fínum skriði en liðið er taplaust í síðustu þremur leikjum sínum en gert tvö jafntefli. Sveinn Aron, sem er 18 ára gamall, er á meðal markahæstu manna í Inkasso-deildinni en markið í kvöld var hans fimmta í deildinni í tíu leikjum.
Því miður fyrir HK náði liðið ekki að landa sigrinum því Huginn jafnaði metin á fimmtu mínútu í uppbótartíma en samkvæmt textaýsingu fótbolti.net frá leiknum var þar að verki Rúnar Freyr Þórhallsson. Lokatölur, 1-1.
Selfoss vann svo mikilvægan sigur á Haukum, 1-0, þar sem Andrew James Pew skoraði sigurmarkið á 90. mínútu leiksins.
HK er í 10. sæti eftir sigurinn í kvöld með tíu stig en Huginn er á botninum með fimm stig. Selfoss lyfti sér upp í sjötta sætið en liðið er með fjórtán stig. Haukar eru með ellefu stig í áttunda sæti.
Grindavík batt enda á sigurgöngu KA | Sonur Eiðs Smára á skotskónum
Tómas Þór Þórðarson skrifar

Mest lesið


Forest bannaði Neville að mæta á völlinn
Enski boltinn


Sjáðu neglur Arons og ótrúlegt skallamark þess sænska
Íslenski boltinn




Uppgjörið: Þór/KA - Stjarnan 1-0 | Mark Söndru Maríu skildi á milli
Íslenski boltinn

Salah bestur og Gravenberch besti ungi
Enski boltinn

Tugir þúsunda fögnuðu á götum Napoli
Fótbolti