Benedikt fundaði í kvöld með Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, og Óttari Proppé, formanni Bjartrar framtíðar. Fundur þremenninganna stóð í rúman klukkutíma en ekki eru neinar formlegar stjórnarmyndunarviðræður hafnar.
Aðspurður segir Benedikt ekki eiga von á tíðindum um formlegar viðræður. „Ég á nú ekki beinlínis von á því, en þetta svosem liggur hjá Bjarna, hann er í bílstjórasætinu.“

Athygli hefur vakið að Benedikt og Óttarr hafa alltaf verið saman á fundum með Bjarna um stjórnarmyndunarviðræður, en fyrir kosningar hafði Óttarr lýst yfir vilja til samstarfs með Pírötum, Vinstri grænum og Samfylkingunni.
„Við erum búnir að lýsa því yfir, við Óttarr, að við ætlum að hafa samleið í þessum viðræðum,“ segir Benedikt og bætir við að það samstarf einskorðist ekki við stjórn með Sjálfstæðisflokki.
„Ég held að það svosem tengist nú ekki Sjálfstæðisflokknum, það tengist bara okkar stefnumálum.“
Aðspurður segir Benedikt að fundurinn hafi verið ákveðið framhald af viðræðum síðustu viku.
„Já það má segja það, það hafi verið þannig, það var reynt að skýra mál betur. Samskiptin eru fín en það er ekki þar með sagt að menn séu sammála um allt, en það var nú vitað fyrirfram.“
Innan Sjálfstæðisflokks hafa menn verið að horfa til Vinstri grænna en flokkarnir tveir hafa samtals þrjátíu og einn þingmann og þyrftu því að bæta við einum flokki hið minnsta. Katrín Jakobsdóttir hefur hins vegar ítrekað sagt að hún vilji fyrst láta reyna á samstarf til vinstri fái hún umboð til stjórnarmyndunar.
Ekki hefur náðst í Óttarr Proppé, Bjarna Benediktsson eða Katrínu Jakobsdóttur þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir fréttastofu í kvöld.