Lars Lagerbäck viðurkenndi að það hefði verið tilfinningaþrunginn stund þegar áhorfendur og leikmenn kvöddu hann á Laugardalsvellinum í kvöld eftir 4-0 sigur á Liechtenstein. Svíinn hefur breytt íslenskum fótbolta til hins betra og á góðar minningar frá Íslandi.
Lars sagðist reyna að halda tilfinningum og einkalífi fyrir sig þegar kæmi að starfi sínu. Hann vildi til að mynda ekki blanda fjölskyldunni sinni í málið. En kvöldið í kvöld var ánægjulegt
„Þetta var sérstakt móment,“ sagði Lars um árin fjögur á Íslandi. Hann vonaði að enginn móðgaðist ef hann líkti árunum hérna við eina af Íslendingasögunum. Vinnan með leikmönnum og teyminu í kringum liðið hefði verið frábær. Þá hefði hann verið svo heppinn að geta ferðast um landið á milli þess sem hann dvaldi í Reykjavík og Akureyri og heillast af því.
„Þetta var tilfinningaþrungin stund,“ sagði Lars sem reyndi að deila henni með Eiði Smára Guðjohnsen. Markahæsti maður landsliðsins vildi ekki taka augnablikið af Lars.
„Eiður er of vingjarnlegur,“ sagði Svíinn.
Lofar að hringja ekki í Heimi
Líklegt má telja að innan tíðar muni Ísland og Svíþjóð mætast á knattspyrnuvellinum. Heimi og Lars er vel til vina og ljóst að Lars hefur sérstakar taugar til íslensku leikmannanna. En með hverjum myndi hann halda?
„Þetta er ekki slæm spurning. Ég myndi líklega fara á leikinn, nóta hans og úrslitin myndu ekki skipta máli. Auðvitað vil ég að Svíum gangi vel en svo er þetta Heimir og teymið. Ég held ég yrði jafnánægður með sigur hvoru megin sem hann lenti,“ sagði Lars. Ómar Smárason, fjölmiðlafulltrúi KSÍ, skaut á Lars fyrir diplómatískt svar.
„Ég mun fylgjast áfram með Íslandi og hringi áfram í Heimi og segi honum hvað mér finnst,“ sagði Lars en dró í land með bros á vör: „Nei, ég lofa að halda mig fjarri.“
