Þetta segir séra Hjörtur Magni Jóhannsson, prestur í Fríkirkjunni, aðspurður hvernig það kom til að Fríkirkjan bauð Menningarsetri múslima afnot af safnaðarheimili sínu á meðan ramadan stendur yfir. Sem kunnugt er, var menningarsetrið borið út úr húsnæði sínu við Skógarhlíð í liðinni viku.
RÚV greindi fyrst frá samkomulagi Fríkirkjunnar og menningarsetursins.

Sjá einnig: Hnefar á lofti við Ýmishúsið
Hjörtur bætir því við að honum þyki ánægjulegt að fá að bjóða upp á íslamskt bænahald í Fríkirkjunni. Kirkjan hafi áður hýst athafnir að hætti búddista, hindúa og gyðinga en aldrei múslima.
„Þetta eru nú systurtrúarbrögð í raun, allar þessar þrjár stóru eingyðistrúarhefðir: Gyðingdómur, kristni og íslam,“ segir Hjörtur. „Þetta eru bræður okkar og systur, þó að áherslur okkar séu ólíkar. Og raunar eru þær gjörólíkar, því við í Fríkirkjunni höfum lagt áherslu á víðsýni, umburðarlyndi, frjálslyndi og mannréttindi. Þannig að við erum jafnvel tveir ólíkir pólar, við höfum varað við bókstafstrú. En þegar bræður okkar og systur eru illa sett og á hrakhólum viljum við vinna svona kærleiksverk.“
Sjá einnig: Segir ummæli um samkynhneigð tekin úr samhengi
Fríkirkjan hafði samband í gær til að bjóða menningarsetrinu afnot af safnaðarheimilinu um óráðinn tíma. Hjörtur segir sambúðina hafa gengið mjög vel í dag. Bænahald menningarsetursins hafi verið fagurt og friðsælt, þó að nokkuð fjölmennt hafi verið.