Innlent

Jón Gnarr býður sig ekki fram til forseta

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Jón Gnarr, ritstjóri innlendrar dagskrár hjá 365, hyggst ekki bjóða sig fram til embættis forseta Íslands í vor. Hann upplýsti um þetta í Ísland í dag í kvöld. Jón stýrði þættinum sjálfur en hinn helmingur Tvíhöfðans, Sigurjón Kjartansson, og blaðamaðurinn Viktoría Hermannsdóttir voru gestir hans.

„Eruð þið nokkuð til í að spyrja mig um þarna forsetann? Mér skilst að það sé ein af fréttum vikunnar,“ sagði Jón aðspurður um hvort hann ætlaði að bjóða sig fram til forseta. „Ég er gríðarlega upp með mér og snortinn og finnst vænt um að fólk vilji að ég bjóði mig fram. Nei, ég hyggst ekki bjóða mig fram til forseta að svo stöddu en ég gæti hugsað mér að gera það síðar.“

Jón segir að hann sakni þess ekkert að vera borgarstjóri en hann sakni þess hins vegar að leika. Hann sé leikari að upplagi.

„Ég hlakka gríðarlega til að fá að leika og búa til íslenskt sjónvarpsefni á nýjan leik. Þannig ég vona að ég hafi svarað þessari spurningar í eitt skipti fyrir öll,“ segir Jón. Sigurjón Kjartansson benti þá á að hann hefði ekki aðeins svarað spurningunni heldur hefði hann spurt hennar líka.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.