Fótbolti

AGF búið að kaupa Björn Daníel

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Björn Daníel gekk í raðir Viking frá FH í byrjun árs 2014.
Björn Daníel gekk í raðir Viking frá FH í byrjun árs 2014. vísir/getty
Danska úrvalsdeildarliðið AGF hefur fest kaup á Birni Daníel Sverrissyni frá Viking í Noregi.

Aftenposten greinir frá þessu. Þar kemur einnig fram að AGF hafi greitt Viking hálfa milljón norskra króna fyrir Björn Daníel, eða sjö milljónir íslenskra króna.

Búist er við að Björn Daníel skrifi undir þriggja ára samning við AGF þar sem hann hittir fyrir landa sinn, Theodór Elmar Bjarnason. AGF er í 7. sæti dönsku deildarinnar eftir sex umferðir.

Björn Daníel átti aðeins hálft ár eftir af samningi sínum við Viking sem hann hefur spilað með frá árinu 2014.

Hafnfirðingurinn, sem hefur leikið sex A-landsleiki fyrir Íslands hönd, skoraði sex mörk í 29 deildarleikjum á sínu fyrsta tímabili með Viking en missti af stórum hluta þess næsta vegna meiðsla. Björn Daníel hefur hins vegar komið sterkur til leiks í ár og leikið 20 deildarleiki og skorað fjögur mörk.

Áður en Björn Daníel hélt út í atvinnumennsku varð hann þrisvar sinnum Íslandsmeistari og einu sinni bikarmeistari með FH.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×