Martin Schulz, forseti Evrópuþingsins, reiknar ekki lengur með að verða kanslaraefni Jafnaðarmannaflokksins(SPD) í þysku þingkosningunum sem fram fara næsta haust.
Spiegel hefur þetta eftir heimildarmönnum sínum innan flokksins.
Evrópuþingmaðurinn Schultz greindi frá því í síðasta mánuði að hann hugðist ekki sækjast eftir endurkjöri sem forseti Evrópuþingsins heldur hella sér út í þýsku landsmálapólitíkina á nýju ári.
Mikið hefur verið skrafað um það síðan að hann yrði mögulega kanslaraefni þýskra Jafnaðarmanna og myndi þar etja kappi við Angelu Merkel, kanslara og leiðtoga Kristilegra demókrata (CDU), sem sækist eftir endurkjöri.
Séu heimildir Spiegel réttar má búast við að leiðin sé greið fyrir Sigmar Gabriel, formann SPD og varakanslara, til að verða kanslaraefni þýskra Jafnaðarmanna.
Schultz nýtur mikilla vinsælda innan flokksins og er vitað að hann vill verða kanslari Þýskalandi. Samkvæmt heimildum Spiegel er hann þó ekki reiðubúinn að skora Gabriel, vin sinn til margra ára, á hólm.
Reiknað er með að SPD greinir frá því hver verður kanslaraefni flokksins í næsta mánuði.
CDU og SPD mynda nú saman ríkisstjórn í Þýskalandi.
Schultz reiknar ekki með að verða kanslaraefni SPD

Tengdar fréttir

Ítalir kljást um að verða næsti forseti Evrópuþingsins
Þinghópur kristilegra demókrata (EPP) hafa tilnefnt Ítalann Antonio Tajani til að taka við forsetaembættinu af Martin Schultz.

Schultz snýr aftur í þýsk stjórnmál
Forseti Evrópuþingsins, Martin Schultz, hyggst ekki bjóða sig fram til endurkjörs í næstu kosningum til Evrópuþingsins.