Næsta sunnudag verður svokölluð hestamessa endurvakin í Reynivallakirkju. Þá eru messugestir hvattir til að koma ríðandi til guðsþjónustu.
Arna segir að séra Gunnar Kristjánsson, sem áður var á Reynivöllum, hafi komið hestamessunni á og hún hafi verið við lýði á meðan hann þjónaði. Gunnar hafi hætt 2014 og hestamessan hafi þá lagst af í bili. Mikið sé af hestafólki í sveitinni.

Aðspurð segist séra Arna ekki sjálf vera hestamanneskja og muni ekki ríða til kirkju. „Nei, ég bara messa og þjóna fólkinu,“ svarar sóknarpresturinn hlæjandi.
Séra Arna segist ekki geta giskað á hversu margir muni mæta í hestamessuna. „Kannski koma þrjátíu til fimmtíu eða jafnvel hundrað, kirkjan tekur ekki mikið meira,“ segir hún.
Áður en séra Arna tók við embættinu á Reynivöllum var hún prestur Íslendinga í Noregi í níu ár. Svo vill til að hestamessan er jafnframt fyrsta guðsþjónusta séra Örnu á nýja staðnum.
„Texti dagsins er skemmtilegur og dálítið táknrænn. Textinn er um það þegar Jesús kemur ríðandi inn í Jerúsalem og hann grætur yfir borginni og fólkinu; yfir erfiðleikunum og óréttlætinu,“ segir séra Arna Grétarsdóttir spurð um það hvað hún muni segja við söfnuð sinn á Reynivöllum á sunnudaginn.