Það var hörkuleikur á dagskránni í þýska boltanum í kvöld er Hoffenheim tók á móti Dortmund.
Þarna voru að mætast liðin í fjórða og sjötta sæti deildarinnar.
Leikurinn var fjörugur og endaði með 2-2 jafntefli.
Hoffenheim komst yfir í tvígang með mörkum frá Marc Uth og Sandro Wagner. Mario Götze jafnaði fyrir Dortmund í fyrra skiptið og það var svo hinn magnaði Pierre-Emerick Aubameyang sem tryggði Dortmund stig að lokum.
Dortmund var manni færra frá 41. mínútu er Marco Reus fékk sitt annað gula spjald. Þá var staðan 2-1 fyrir Hoffenheim og því ansi vel gert hjá Dortmund að landa stigi.
Bæði lið færðu sig upp um eitt stig með jafnteflinu. Hoffenheim er komið í þriðja sætið en Dortmund er í fimmta sæti.
