Svissnesk yfirvöld segja að húsleit hafi verið gerð í höfuðstöðvum franska knattspyrnusambandsins í gær vegna rannsóknar á Sepp Blatter, fyrrum forseta FIFA.
Blatter og Michel Platini, sem enn er forseti Knattspyrnusambands Evrópu, voru dæmdir í sex ára bann frá knattspyrnu fyrir greiðslu sem FIFA greiddi Platini árið 2011.
Greiðslan mun hafa verið fyrir störf sem Platini vann fyrir Blatter og FIFA nokkrum árum fyrr en engin gögn finnast því til stuðnings. Báðir hafa lýst yfir sakleysi sínu og ætla að fara með mál sín fyrir Alþjóðaíþróttadómstólinn í Lausanne.
Svissnesk yfirvöld segja að lagt hafi verið hald á gögn í tengslum við geiðsluna sem var upp á 175 milljónir króna.
