Fótbolti

Við getum klárað hvaða lið sem er í heiminum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Birkir Bjarnason skoraði fyrsta mark karlalandsliðs Íslands á stórmóti, þegar hann jafnaði gegn Portúgal.
Birkir Bjarnason skoraði fyrsta mark karlalandsliðs Íslands á stórmóti, þegar hann jafnaði gegn Portúgal. Vísir/Getty
Birkir Bjarnason segir enga hættu á því að leikmenn liðsins eigi erfitt með að halda sér á jörðinni eftir sigurinn á Englendingum í Nice á mánudaginn. Skammt er stórra högga á milli og leikur framundan gegn Frökkum í átta liða úrslitum á sunnudag.

„Við erum í himnaríki,“ sagði Birkir aðspurður um líðanina á milli stórra stunda en var fljótur niður. „Við erum mjög ánægðir með að vera komnir svona langt og viljum auðvitað komast áfram gegn Frökkum. Við höfum það frábært.“

Menn séu ekki of hátt uppi eftir sigurinn gegn Englandi.

„En, ég held ekki. Eins og hópurinn er og hugarfarið þá tel ég enga hættu á því. Við erum allir mjög einbeittir á það sem við þurfum að gera.“

Strákarnir fengu frí í gær, fóru sumir í golf og aðrir niður í bæ. Birkir fór út að borða með Gylfa, Sverri Inga og Hannesi Þór í gærkvöldi. Þeir eru ekki byrjaðir að leikgreina Frakka en kantmaðurinn sókndjarfi telur að þjálfararnir kynni Frakkana fyrir þeim í dag eða kvöld.

Aðspurður um möguleika Íslands gegn Frökkum, hvort okkar menn geti lagt heimamenn að velli sagði Birkir:

„Já, ef við getum klárað Englendingana getum við klárað hvaða lið sem er í heiminum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×