Innlent

Björgunarsveitirnar maður ársins á Rás 2

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Björgunarsveitirnar hafa farið mikinn undanfarnar vikur við leit að fólki, þá sérstaklega rjúpnaveiðiskyttum.
Björgunarsveitirnar hafa farið mikinn undanfarnar vikur við leit að fólki, þá sérstaklega rjúpnaveiðiskyttum. Vísir/Anton
Björgunarsveitir slysvarnafélagsins Landsbjargar komu, sáu og sigruðu í vali hlustenda Rásar 2 á manni ársins. Þetta kom fram í Síðdegisútvarpinu í dag. Fréttamaðurinn Jóhannes Kr. Kristjánsson varð í öðru sæti og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknar og fyrrverandi forsætisráðherra, í því þriðja.

Niðurstöðunnar hafði verið beðið með óvenju mikilli eftirvæntingu sökum deilna Sigmundar Davíðs við RÚV vegna þess sem hann telur vera ósanngjarna umfjöllun um sig á árinu sem senn er að líða. Er hann sérstaklega ósáttur við umfjöllun í tengslum við félagið Wintris.

Jóhannes Kr. var einmitt í fararbroddi í umfjöllun Reykjavík Media í samstarfi við Kastljós og sænska ríkissjónvarpið við úrvinnslu gagna úr Panama-lekanum þaðan sem upplýsingarnar um umrætt félag komu fram. Sigmundur hefur farið fram á afsökunarbeiðni frá RÚV sem stendur við allan sinn fréttaflutning.

Talið hafði verið líklegt að Sigmundur Davíð myndi fara með sigur af hólmi í kjörinu og voru margir spenntir hvernig verðlaunaafhendingin færi fram. Ekkert verður af því. Ekki kemur fram á vef RÚV hvernig atkvæðin skiptust en metþátttaka var í kjörinu þar sem tuttugu þúsund atkvæði bárust.


Tengdar fréttir

Sigmundur Davíð fær enga afsökunarbeiðni

Upplýsingarnar sem fram komu í umfjöllun um Panamaskjölin standa og hafa ekki verið hraktar. Því fær Sigmundur Davíð Gunnlaugsson enga afsökunarbeiðni frá Ríkisútvarpinu.

Sigmundur Davíð vill afsökunarbeiðni frá RÚV

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, vill að Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri biðji sig og eiginkonu sína, Önnu Sigurlaugu Pálsdóttur, afsökunar vegna framgöngu Ríkisútvarpsins í tengslum við umfjöllun um Panama-skjölin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×