Enski boltinn

Gylfi sá sjötti hættulegasti í ensku úrvalsdeildinni á árinu 2016

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. Vísir/Getty
Íslenski landsliðsmaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson er ofarlega á lista enska blaðsins Telegraph sem reiknaði út hvaða leikmenn hafa átt þátt í flestum mörkum í ensku úrvalsdeildinni á árinu 2016.

Leikmönnum er raðað upp eftir því hversu mörgum mörkum þeir komu með beinum hætti að með því að skora sjálfir eða gefa stoðsendingu.

Gylfi hefur samkvæmt tölfræði Telegraph komið að 21 marki á almanaksárinu, skorað fjórtán mörk sjálfur og lagt önnur sjö upp fyrir félaga sína.

Gylfi deilir þar sjötta sætinu með Liverpool-manninum Roberto Firmino sem er með nákvæmlega sömu tölur og íslenski miðjumaðurinn.

Þrír menn eru í nokkrum sérflokki á listanum. Diego Costa hjá Chelsea er efstur með 30 markastig (20 mörk og 10 stoðsendingar) en þeir Sergio Agüero hjá Manchester City (27 mörk og 1 stoðsending) og Alexis Sánchez hjá Arsenal (19 mörk og 9 stoðsendingar) eru jafnir öðru sætinu með 28 markastig.

Jermaine Defoe hjá Sunderland og  Harry Kane hjá Tottenham eru báðir bara einu stigi á undan Gylfa í fjórða og fimmta sætið. Gylfi á því smá möguleika á því að komast upp fyrir þá í síðustu tveimur leikjum Swansea.

Sem betur fer fyrir Gylfa og Swansea City eru báðir þessir leikir á heimavelli liðsins en ekkert hefur gengið í útileikjunum að undanförnu. Gylfi fær tækifæri til að bæta við mörkum og stoðsendingum í leikjum á móti West Ham á öðrum degi jóla og á móti Bournemouth þann 30. desember.

Það er hægt að nálgast fréttina á Telegraph hér og umfjöllunina um Gylfa hér.

Topp tíu listinn hjá Telegraph:

1. Diego Costa, Chelsea 30 markastig (20 mörk og 10 stoðsendingar)

2. Sergio Agüero, Manchester  City 28 markastig (27 mörk og 1 stoðsending)

2. Alexis Sánchez, Arsenal 28 markastig (19 mörk og 9 stoðsendingar)

4. Jermaine Defoe, Sunderland 22 markastig (19 mörk og 3 stoðsendingar)

4. Harry Kane, Tottenham 22 markastig (21 mark og 1 stoðsending)

6. Gylfi Sigurðsson, Swansea 21 markastig (14 mörk og 7 stoðsendingar)

6. Roberto Firmino, Liverpool 21 markastig (14 mörk og  7 stoðsendingar)

8. Sadio Mané, Liverpool 20 markastig (14 mörk og 6 stoðsendingar)

8. Dimitri Payet, West Ham 20 markastig (6 mörk og 14 stoðsendingar)

8. Christian Eriksen, Tottenham 20 markastig (9 mörk og 11 stoðsendingar)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×