Erlent

Obama skaut fast á seinasta blaðamannafundi ársins: „Það gerist ekki mikið í Rússlandi án Pútíns“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Obama á fundinum í dag.
Obama á fundinum í dag. vísir/getty
Barack Obama, Bandaríkjaforseti, hélt sinn seinasta blaðamannafund á árinu í Hvíta húsinu í dag. Hann ræddi meðal annars málefni Sýrlands og umfjöllun fjölmiðla um tölvupóstmál Hillary Clinton en forsetinn vill meina að hún hafi ekki alltaf verið sanngjörn.

Þá notaði Obama tækifærið og skaut nokkuð fast á Vladimir Pútín, Rússlandsforseta, en eins og greint hefur frá telja bæði Bandaríska leyniþjónustan, CIA, og Bandaríska alríkislögreglan, FBI, að Rússar hafi staðið á bak við tölvuárásir á landsnefnd Demókrata og John Podesta, kosningastjóra Hillary Clinton.

Á fundinum í dag sagðist Obama hafa fulla trú á því að ályktanir CIA og FBI væru réttar og sagði að hann vildi sjá skýrsluna sem hann hefur óskað eftir um málið áður en hann lætur af embætti þann 20. janúar. Obama forðaðist að svara því hvort að Pútín hafi sjálfur hafi stýrt tölvuárásunum, eins og Clinton hefur haldið fram, en sagði:

„Það gerist ekki mikið í Rússlandi án Pútíns.“

Obama sagði að í september hefði hann beðið Pútín um að hætta tilraunum sínum til að hafa áhrif á forsetakosningarnar í Bandaríkjunum. Kvaðst hann hafa sagt Rússlandsforseta að ef hann gerði það ekki myndi það hafa alvarlegar afleiðingar.

Bandaríkjaforseti sagði að hann teldi að þetta hefði haft einhver áhrif þar sem ekki voru gerðar frekari tilraunir til afskipta af kosningunum en tölvupóstum landsnefndarinnar og Podesta hafði þá þegar verið lekið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×