Erlent

Prófanir Uber vekja grunsemdir

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Anthony Levandowski, varaforseti Uber.
Anthony Levandowski, varaforseti Uber. Vísir/AFP
Bifreiðaeftirlit Kaliforníuríkis í Bandaríkjunum krefst þess að Uber hætti þegar í stað að prófa sjálfkeyrandi bíla á götum ríkisins. „Það er ólöglegt fyrir fyrirtækið að keyra sjálfkeyrandi bíla sína á opinberum vegum án opinbers leyfis,“ segir í bréfi sem bifreiðaeftirlitið sendi Uber í gær.

„Því þarf fyrirtækið þegar í stað að hætta prufum þar,“ segir enn fremur í bréfinu.

Stjórnendur Uber eru hins vegar ósammála mati bifreiðaeftirlitsins. „Við höfum tekið eftir umræðu um hvort sérstakt leyfi þurfi fyrir prófanir okkar á sjálfkeyrandi tækni. Við höfum kynnt okkur málið vandlega og trúum því að sú sé ekki raunin,“ skrifaði Anthony Levandowski, varaforseti fyrirtækisins, í bloggfærslu.

Þá gagnrýndi Levandowski reglugerðir ríkisins og sagði þær almennt of strangar. Þær gætu haft þau áhrif að hægja á framþróun tækninnar.

Prófanir Uber á sjálfkeyrandi bílum standa einnig yfir í Pennsylvaníuríki sem hefur ekki sett sams konar lög og Kalifornía.

Uber er þó ekki eina fyrirtækið sem prófar umrædda tækni þessa dagana í Kaliforníu. Tuttugu önnur fyrirtæki hafa fengið leyfi frá bifreiðaeftirliti ríkisins til slíkra prófana. Þeirra á meðal eru til að mynda Google, Tesla, BMW, Honda, Ford, Mercedes Benz, Nissan og General Motors.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×