Erlent

Carlsen strunsaði út eftir tap í áttundu skákinni

Atli Ísleifsson skrifar
Fyrstu sjö skákir einvígisins luku með jafntefli, en Sergei Karjakin hefur nú yfirhöndina.
Fyrstu sjö skákir einvígisins luku með jafntefli, en Sergei Karjakin hefur nú yfirhöndina. Vísir/EPA
Norski stórmeistarinn og heimsmeistarinn Magnus Carlsen stormaði út af fréttamannafundi í nótt eftir að hafa tapað áttundu skákinni í heimsmeistaraeinvígi hans og Rússans Sergei Karjakin sem fram fer í New York.

Carlsen var bersýnilega pirraður þegar hann mætti á fréttamannafundinn og hunsaði meðal annars fréttamenn norskra miðla áður en hann settist í sæti sitt. Eftir að hafa setið þar í um tvær mínútur á meðan hann beið eftir að fundurinn hæfist strunsaði hann út úr salnum.

Hann á yfir höfði sér allt að sjö milljón króna sekt vegna hegðunar sinnar.

Carlsen var hvítur og var aðgangsharður í spilamennskunni í skák næturinnar. Skákin var dramatísk þar sem Carlsen gerði röð mistaka sem Karjakin nýtti sér og kláraði skákina í 52. leik. Undir lokin var Karjakin þó undir mikilli tímapressu þar sem hann hafði spilað fyrstu fjörutíu leikina á tæpum 100 mínútum og átti þá einungis tíu sekúndur eftir á klukkunni.

Fyrstu sjö skákirnar luku með jafntefli og hefur Karjakin því forystu með 4,5 vinningi gegn 3,5. Skákmennirnir munu hvíla í dag en setjast aftur við borðið á morgun. Alls eru leiknar tólf skákir í einvíginu.

Sjá má hvernig skákin spilaðist á síðunni skák.blog.is.

Að neðan má sjá atvikið á fréttamannafundinum þar sem Carlsen strunsaði út.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×