Innlent

Benedikt og Óttarr funduðu með Bjarna í fjármálaráðuneytinu

Birgir Olgeirsson skrifar
Óttarr Proppé og Benedikt Jóhannesson funduðu með Bjarna Benediktssyni í dag.
Óttarr Proppé og Benedikt Jóhannesson funduðu með Bjarna Benediktssyni í dag. vísir/Anton Brink
Líkur eru á að formenn Sjálfstæðisflokksins, Bjartar framtíðar og Viðreisnar fundi síðar í dag eða í kvöld um möguleika á formlegum stjórnarmyndunarviðræðum.

Greint er frá því á vef Ríkisútvarpsins að formenn þessara flokka hafi setið fund í fjármálaráðuneytinu sem lauk á fjórða tímanum í dag.

Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, og Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, sögðu við það tilefni við Ríkisútvarpið að ekkert hefði verið ákveðið með framhaldið.

Óttarr sagði við Ríkisútvarpið að formennirnir séu að skoða hvort það sé grundvöllur fyrir því að halda þessum viðræðum áfram.

Spurður hvort þessir formenn muni funda aftur í dag eða í kvöld svarar Benedikt því að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, hafi greint frá því að hugsanlega muni hann skila stjórnarmyndunarumboðinu fyrir helgi.

„Og ef helgin byrjar á miðnætti þá gæti það verið þá,“ segir Benedikt við Ríkisútvarpið.

Spurðir hvort áframhald verði á viðræðum þeirra síðar í dag eða í kvöld telja þeir líkur á því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×