Fótbolti

Southgate vill fá að vita innan mánaðar hvort hann fái starfið til frambúðar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gareth Southgate vill fá starfið.
Gareth Southgate vill fá starfið. vísir/getty
Gareth Southgate, bráðabirgðastjóri enska landsliðsins í fótbolta, vill vita innan mánaðar hvort hann fái starfið til frambúðar en hann tók við því til bráðabirgða eftir að Sam Allardyce hrökklaðist úr starfi.

Síðasti leikur Southgate sem bráðabirgðastjóri Englands verður annað kvöld þegar England tekur á móti Spáni á Wembley en enska liðið pakkaði því skoska saman undir hans stjórn, 3-0, í undankeppni HM fyrir helgi.

Southgate er þjálfari U21 árs landsliðsins sem á Evrópumót fyrir höndum á næsta ári en enska landsliðið spilar næst í mars þegar næsta landsleikjavika hefst.

„Það er mikilvægt fyrir mig að vita hvað ég verð að gera eftir miðjan nóvember,“ sagði Southgate sem er búinn að stýra enska liðinu í tveimur leikjum án þess að fá á sig mark og safna fjórum stigum.

„Auðvitað vilja allir vita hvað verður og þetta verður að ráðast á næsta mánuði miðað við hvernig hlutirnir eru að þróast. Við þurfum að taka skynsama ákvörðun fyrir sambandið,“ sagði Gareth Southgate.

Landsliðsnefnd enska knattspyrnusambandsins mun nú funda um framtíð Southgate og taka ákvörðun um hvort hann fái starfið til frambúðar eða hvort annar maður verði sóttur. Southgate er talinn líklegastur til að fá starfið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×