Innlent

Lokatölur úr Reykjavík norður: Karl Garðarsson missti þingsæti sitt

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Karl Garðarsson fráfarandi þingmaður Framsóknarflokksins.
Karl Garðarsson fráfarandi þingmaður Framsóknarflokksins. Vísir/Vilhelm
Karl Garðarsson er nú fráfarandi þingmaður Framsóknarflokksins en þetta varð ljóst eftir að lokatölur bárust úr Reykjavíkurkjördæmi norður núna á fimmta tímanum. Flokkurinn hlaut 1987 atkvæði eða 5,7 prósent í kjördæminu.Eins og staðan er núna er Samfylkingin heldur ekki með mann inni í Reykjavík norður en Sigríður Ingibjörg Ingadóttir oddviti flokksins gæti dottið inn á lokametrunum sem jöfnunarþingmaður. Helgi Hjörvar núverandi þingflokksformaður Samfylkingarinnar á hins vegar ekki möguleika á að komast á þing en hann skipaði 2. sætið á lista flokksins.

Kjörsókn í Reykjavík norður var tæplega 78 prósent en stærsti flokkurinn í kjördæminu er Sjálfstæðisflokkurinn með 24,5 prósent atkvæða. Vinstri græn koma þar næst á eftir með 20,9 prósent og Píratar eru þriðji stærsti flokkurinn með 19 prósent atkvæða.Kjörstjórnin í Reykjavík norður var sú fyrsta til að skila af sér lokatölum en ómögulegt er að segja til um hvenær úrslit kosninganna liggja fyrir. Eins og tölurnar standa núna er Sjálfstæðisflokkurinn langstærsti flokkurinn á þingi með 28,5 prósent atkvæða á landsvísu. Vinstri græn koma þar á eftir með 17 prósent atkvæða á landinu öllu og þá koma Píratar með 14,5 prósent. Framsókn og Samfylkingin tapa miklu á landsvísu og hljóta nú sína verstu kosningu í sögunni.

Tengd skjöl
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.