Innlent

Telur Guðna vera búinn að útbúa góða „strategíu“

Birgir Olgeirsson skrifar
Talið er að stjórnarumboðsfundirnir með Guðna Th. verði ögn hversdagslegri en með Ólafi Ragnari.
Talið er að stjórnarumboðsfundirnir með Guðna Th. verði ögn hversdagslegri en með Ólafi Ragnari. Vísir
Þeir mæta einn af öðrum, leiðtogar stjórnmálaflokkanna, á Bessastaði í dag til að ræða við Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands, um væntanlegar stjórnarmyndunarviðræður og hver sé best til þess fallinn að vera handhafi stjórnarmyndunarumboðsins.

Þegar Ólafur Ragnar Grímsson leiddi þessa fundi á Bessastöðum í sinni forsetatíð þá settust formenn eða fulltrúar flokkanna niður með honum við gamla eikarborðið, sem er talið vera allt að fjögur hundruð ára gamalt, í bókhlöðunni.

Sjá einnig: Í beinni: Formenn mæta á fund forseta

Þar var staða rædd og fengu formennirnir oftar en ekki að heyra langar og miklar sögur frá Ólafi Ragnari sem höfðu mikla og þrungna merkingu. Boðið var upp á gott kaffi líkt og Guðni gerir en í dag er fjölmiðlamönnum á Bessastöðum boðið upp á kleinur með kaffinu.

Guðmundur Hálfdánarson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands.Vísir
Guðni hefur ekkert á móti því að segja frá

Þessir fundir ráðast hins vegar að miklu leyti af forsetanum sjálfum og því má ætla að Guðni Th. hafi annan hátt á honum, þó svo að formið sé háð hefðum.

„Guðni hefur ekkert móti því að segja frá en ég held að hann hafi aðeins öðruvísi sýn á sitt hlutverk en Ólafur. Ég held að það fari almennt í taugarnar á mönnum að sitja undir einhverjum fyrirlestri frá forsetanum,“ segir Guðmundur Hálfdánarson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, sem þekkir vel til Guðna.

Hann á von á því að þessir stjórnarumboðsfundir með Guðna verði ekki eins hátíðlegir og með Ólafi Ragnari.

„Það myndi vera mín tilfinning, hann er þannig maður. Hann er minna fyrir að gefa sig út fyrir að vera yfir aðra hafinn,“ segir Guðmundur. Guðni sé ekki fyrrverandi stjórnmálamaður en það var Ólafur Ragnar sem hafði ekki gengið í gegnum að mynda stjórn en hann hafði setið í þeim og því mögulega með mikla skoðun á því hvernig stjórnir ættu að vera.

Oddný þarf ekki að vera lengi inni

Reiknað er með um klukkutíma fyrir hvern fund forseta með leiðtogum flokkanna og má ætla að sá tími verði fullnýttur í hvert sinn. Það er þó ekki þar með sagt að allur sá tími fari í viðræður, mæta þarf á svæðið, ræða við fjölmiðla, stilla sér upp á mynd með forsetanum við gamla eikarborðið og svo þarf að koma sér af Bessastöðum. Þess á milli geta viðræðurnar sjálfar þó verið snöggar þar sem fulltrúar flokkanna geta tekið tíu mínútur, jafnvel bara tíu sekúndur, til að segja forsetanum sína skoðun á gang mála. Restin af tímanum gæti farið í almennt spjall.

„Oddný Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, þarf í sjálfu sér ekki að vera lengi inni því það eru litlar líkur á að hún geti myndað stjórn.“

Guðmundur á von á því að fundirnir með Guðna verði þægilegir. Hann sé sjálfsagt búinn að velta þeim fyrir sér vel og lengi og örugglega búinn að útbúa strategíu fyrir þá.

„Guðni hefur stúderað mjög þetta fyrirbæri og örugglega velt fyrir sér hvernig hann ætti að bregðast við. Hann kemur til með að gera þetta úthugsað og kórrétt.“

Guðni Th. Jóhannesson og Katrín Jakobsdóttir settust niður til fundar nú um ellefuleytið.vísir/una
Guðni Th. þekkir söguna vel

Í apríl síðastliðnum ræddi Vísir einmitt við Guðna Th. um hlutverk forseta við stjórnarmyndunarviðræður. Á þeim tímapunkti hafði Ólafur Ragnar tilkynnt að hann væri á leið í forsetaframboð og ein helsta ástæðan væri að hann sæi fyrir erfiðar stjórnarmyndunarviðræður eftir næstu kosningar og þar þyrfti styrka stjórn.

Sjá einnig: Hlutverk forseta við myndun ríkisstjórnar: Byrsti sig og skipaði nýkjörnum Sigmundi Davíð fyrir

Guðni sagði stjórnarmyndunarviðræður hafa gengið hratt fyrir sig í tíð Ólafs Ragnars en tvisvar gegndi hann veigamiklu hlutverki. Annars vegar þegar minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna var mynduð árið 2009, eftir að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hrökklaðist frá völdum.

Ólafur Ragnar hvatti þá til að minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna yrði mynduð með hlutleysi Framsóknarflokks. Guðni sagði í samtali við Vísi að það lægju fyrir margar heimildir um það að Ólafur Ragnar hefði byrst sig við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, þá nýkjörinn formann Framsóknarflokksins, þegar honum sýndist Sigmundur vera hikandi og beinlínis skipað honum að taka sig til að veita minnihlutastjórninni hlutleysi.

Seinna skiptið var þegar Ólafur Ragnar veitti Framsóknarflokknum umboð til stjórnarmyndunar eftir þingkosningarnar árið 2013. Sjálfstæðisflokkurinn hlaut flest atkvæði, 26,7 prósent, og nítján þingmenn. Framsóknarflokkurinn fékk næst flest atkvæði, 24,4 prósent, en jafn marga þingmenn. Var það túlkun forsetans að Framsóknarflokkurinn hefði verið ótvíræður sigurvegari kosninganna þar sem hann bætti við sig flestum þingmönnum, eða tíu, á móti þremur hjá Sjálfstæðisflokknum. Guðni sagði við Vísi að færa mætti rök fyrir því að Ólafur hefði breytt þar rétt þegar hann veitti Sigmundi Davíð umboð til stjórnarmyndunar en ekki Bjarna Benediktssyni 2013.

Kristján Eldjárn.
Ekki hægt að hafna meirihluta sem stenst vantraust

Guðmundur Hálfdánarson nefnir við Vísi að hann reikni með að Guðni Th. fari frekar í það far sem Kristján Eldjárn og Vigdís Finnbogadóttir voru í sem forsetar. Forsetinn getur aldrei staðið í veg fyrir því að flokkar sem hafi meirihluta geti myndað stjórn, þannig að ef myndaður er meirihluti sem stenst vantrauststillögu á þingi er hann kominn fram.

Guðni nefndi sjálfur hins vegar í samtali við Vísi í apríl síðastliðnum að ef illa gengur að mynda stjórn geti forsetinn stigið inn á sviðið og myndað utanþingsstjórn eins og Sveinn Björnsson gerði árið 1942 og Kristján Eldjárn var kominn á fremstan hlunn með bæði árið 1979 og aftur árið 1980.



„En það þarf mikið að ganga á til að svoleiðis örþrifaráð verði uppi á borðum,“ sagði Guðni.

Forsetinn verður ekki lykilmaður fyrr en allt er komið í hnút

Guðmundur telur annars menn almennt mikla hlutverk forsetans í þessum málum. „Að minnsta kosti til að byrja með. Það er ekki forsetinn sem myndar stjórn heldur formenn stjórnarflokkanna og það er ekki fyrr en allt er komið í hnút sem forsetinn verður lykilmaður í þessu öllum saman. Hans hlutverk er að sjá til þess að hlutirnir gangi rétt fyrir sig og rúlli áfram. Tala við þá og heyra hvort það sé þegar komið eitthvað líklegt mynstur og ef það verður þá mun sjálfsagt sá formaður stjórnmálaflokks fá umboðið.“

Guðmundur segir valið líklegast standa á milli Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, og Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna, og að Bjarni muni fá umboðið eins og sakir standa. Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, fái ekki stjórnarmyndunarumboðið í fyrstu umferð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×