Innlent

Utanríkisráðherra skipaði aðstoðarmanninn í stjórn Íslandsstofu

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Lilja Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra, og Hrannar Pétursson.
Lilja Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra, og Hrannar Pétursson. vísir/stefán
Hrannar Pétursson, aðstoðarmaður utanríkisráðherra og fyrrverandi forsetaframbjóðandi, hefur verið skipaður í stjórn Íslandsstofu.

Hlutverk Íslandsstofu er meðal annars að vera samráðsvettvangur stjórnvalda og atvinnulífsins fyrir markaðs- og kynningarstarf á erlendri grund.

Tilkynnt var um nýja sjö manna stjórn í fyrradag og situr hún næstu þrjú ár. Skipunartími síðustu stjórnar rann út í ágúst.

„Þegar ég fékk Hrannar í ráðuneytið þá var það á faglegum en ekki pólitískum forsendum. Hann er ekki flokksbundinn Fram­sóknar­maður og hefur engum skyldum að gegna gagnvart flokknum,“ segir Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra.

Lilja segir að það hafi lengi legið fyrir að skipa þyrfti nýja stjórn enda lauk skipunartíma síðustu stjórnar í ágúst. Því var ný stjórn skipuð fyrir tveimur vikum.

Að sögn Lilju leit hún þannig á málið að Hrannar væri besti maðurinn sem til boða stæði í stöðuna. Hann hafi gífurlega reynslu á þessu sviði. Í gegnum tíðina hefur Hrannar starfað á fréttastofu RÚV, sem upplýsingafulltrúi Ísal og framkvæmdastjóri samskiptasviðs Vodafone. Í lok árs 2014 og upphafi árs 2015 var hann forsætisráðherra innan handar.

Lilja segir ekki tímabært að tala um hvort Hrannar verði áfram aðstoðarmaður hennar sitji hún enn í ráðherrastól að kosningum loknum.

„Ég þurfti að sannfæra hann töluvert um að koma í ráðuneytið á sínum tíma. Við höfum ekki rætt neitt slíkt enda er það ekki tímabært. Nú einbeiti ég mér að kosningabaráttunni,“ segir Lilja Alfreðsdóttir.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×