Innlent

Skorar á Sigmund Davíð að stofna eigin stjórnmálaflokk

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sigmundur Davíð og Anna Sigurlaug kona hans eftir formannskjörið í dag þar sem hann laut í lægra haldi fyrir Sigurði Inga.
Sigmundur Davíð og Anna Sigurlaug kona hans eftir formannskjörið í dag þar sem hann laut í lægra haldi fyrir Sigurði Inga. vísir/anton brink
Gunnar Kristinn Þórðarson hefur ákveðið að segja sig frá trúnaðarstörfum fyrir Framsóknarflokkinn og afþakka 5. sæti á lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður. Gunnar greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni og segir að ástæðan sé niðurstaða formannskosningarinnar í flokknum í dag og hvernig staðið var að þeim. Hann skorar á Sigmund Davíð að stofna eigin stjórnmálaflokk.

Í samtali við Vísi segir Gunnar að formannskjör Sigurðar Inga Jóhannssonar forsætisráðherra í dag hafi verið byggt á svikum.

„Sigurður gerir þetta á grundvelli svikinna loforða sem hann setti oft fram og ég tel í hæsta máta ótrúverðugt að öfl innan flokksins ryðji formanni frá og hreyki sér af árangri þess manns sem þeir fella af stalli. Pólitískt séð tel ég fullvíst að þetta muni leiða til fylgishruns hjá flokknum og ég held að Framsóknarflokkurinn muni berjast fyrir lífi sínu í komandi kosningum,“ segir Gunnar.

Hann skorar á Sigmund Davíð að fara í sérframboð en Gunnar er ekki búinn að ákveða sig hvort að hann segi sig úr Framsóknarflokknum.

„Það fer bara eftir því hvað Sigmundur gerir og segir og ég mun fylgjast með því á næstu dögum.“

Gunnar segir mikla reiði innan Framsóknarflokksins hvernig að formannsframboði Sigurðar Inga var staðið en hann kveðst líta svo á að vinstri öflin hafi náð völdum í flokknum. Aðspurður kveðst hann ekki hafa trú á því að nýkjörnum formanni takist að sameina flokkinn fyrir kosningar. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×