Innlent

Slegist um miðana á styrktartónleika Stefáns Karls

Jakob Bjarnar skrifar
Miðarnir á styrktartónleika Stefáns Karls ruku út, 505 og hafa aðstendendur gripið til þess að leyfa endursölu á sínum miðum.
Miðarnir á styrktartónleika Stefáns Karls ruku út, 505 og hafa aðstendendur gripið til þess að leyfa endursölu á sínum miðum.
„Það var uppselt á tónleikana strax á laugardaginn,“ segir Ari Matthíasson Þjóðleikhússtjóri.

Hann er að tala um styrktartónleika sem haldnir verða í kvöld í Þjóðleikhúsinu. Þeir eru haldnir sérstaklega fyrir Stefán Karl Stefánsson leikara sem á morgun er að fara í alvarlega aðgerð.

Stefán Karl var í einlægu og opinskáu viðtali við Vísi fyrir skemmstu hvar hann sagði af veikindum sínum.

„Við könnuðum möguleika á að vera með aukatónleika en það var því miður ekki hægt því sumir listamannanna voru bókaðir annars staðar eftir tónleikana,“ segir Ari.

Þá var brugðið á það ráð að stofna sérstakan styrktarreikning, þar sem fólki gefst kostur á að styrkja Stefán Karl sérstaklega. Sem er: 0301-26-1909, kt. 710269-2709.

Troðfullt verður í Þjóðleikhúsinu í kvöld. Þó fríkvöld leikara sé á mánudögum. Ari er ánægður með hversu vel hefur verið tekið í styrktartónleikana.
„Ásóknin í miðana er slík að margt af okkar starfsfólki, hér í Þjóðleikhúsinu, sem hafði keypt sér miða en sér ekki fram á að geta sest í sætin, hefur leyft að sínir miðar yrðu seldir aftur öðrum.“

Ari segir að allir sem leitað var til vegna tónleikanna hafi verið boðnir og búnir; Ölgerðin gaf allar veitingar sem seldar verða við viðburðinn og renna tekjur af því óskiptar til Stefáns. Auglýsingastofan sem hannaði „pósterinn“ gaf vinnu sína, prentsmiðjan prentun og þannig á áfram telja.

„Allir sem maður hefur leitað til virðast vilja leggja þessu málefni lið,“ segir Ari sem er afar ánægður með viðtökurnar. Hann segir að oft hafi eitt og annað verið á dagskrá í Þjóðleikhúsinu sem hafi verið vinsælt og eftirsótt, en erfitt er að finna dæmi um nokkuð þar sem miðarnir fóru svo hratt og örugglega. Um er að ræða 505 sæti og miðinn kostar 3.500.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×