Fótbolti

Björn Bergmann: Kom mér rosalega á óvart að vera í byrjunarliðinu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Björn Bergmann í leiknum í kvöld.
Björn Bergmann í leiknum í kvöld. Vísir/Anton
Björn Bergmann Sigurðarsson kom óvænt inn í byrjunarlið íslenska landsliðsins í sigurleik liðsins gegn Finnum í kvöld. Þetta var hans fyrsti landsleikur frá árinu 2011 þegar hann spilaði nokkrar mínútur gegn Kýpur. Björn segist ekki hafa búist við að vera hent strax í byrjunarliðið.

„Það kom mér rosalega á óvart. Ég vissi að þetta væri möguleiki vegna meiðsla annarra leikmanna. Ég bjóst samt ekki við þessu og það var ótrúlega gaman að fá að vera með,“ segir Björn sem myndaði nýtt framherjapar með Alfreð Finnbogasyni. Hann segir að hlutverk sitt hafi verið einfalt.

„Það var að vinna með Alfreð og vera duglegur að hlaupa og hlaupa á rétta staði,“ segir Björn sem telur að sigurinn hafi verið þolinmæðisverk en liðið hafi kannski verið með lukkuna með sér í liði á lokasprettinum. Strákarnir okkar splæstu í tvö mörk í uppbótartíma og var sigurmarki afar umdeilt. Björn segir að sigurinn sé vítamínssprauta fyrir leikinn gegn Tyrkjum á sunnudaginn.

Sjá einnig: Sjáðu dramatískt og umdeilt sigurmark Íslands

„Þessi sigur gefur okkur mikið sjálfstraust fyrir hann. Það er alveg ljóst að við getum betur og þetta var kannski heppni í lokin. Við getum mikið betur og við munum sannarlega sýna það á sunnudaginn,“ segir Björn.

Mikið hefur verið fjallað um landsliðsferil Björns að undanförnu en hann hafnaði sæti á sínum tíma sæti í landsliðinu líkt og frægt er orðið. Töldu margir að landsliðsferli hans væri lokið þrátt fyrir góða spilamennsku með liði sínu Molde að undanförnu. Björn segist vera hrikalega ánægður með að vera kominn aftur í landsliðið.

„Það var hrikalega gaman að vera kominn aftur inn í liðið og fá að byrja leikinn. Þetta er alveg frábært.“


Tengdar fréttir

Viðar Örn: Reiknaði með að byrja

Viðar Örn Kjartansson hefur verið duglegur að skora með félagsliðum sínum en bíður eftir tækifæri í byrjunarliði íslenska landsliðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×