Fótbolti

Afhroð Vals gott dæmi um að enginn á Íslandi er nógu góður fyrir Ólaf í Randers

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ólafur Kristjánsson byrjar vel með Randers en Íslendingar úr Pepsi-deildinni koma ekki til hans í janúar.
Ólafur Kristjánsson byrjar vel með Randers en Íslendingar úr Pepsi-deildinni koma ekki til hans í janúar. vísir/getty
Ólafur Kristjánsson byrjar frábærlega sem þjálfari Randers í Danmörku. Liðið hefur aldrei byrjað betur í úrvalsdeildinni þar í landi, en Ólafur er með liðið í öðru sæti eftir tíu umferðir, þremur stigum á eftir stórveldinu FCK sem er ríkjandi meistari.

Ólafur þjálfaði áður Nordsjælland en var sagt upp í byrjun árs. Þar var hann með í hópnum þegar mest var fjóra Íslendinga en nú er hann aðeins með einn; landsliðsmarkvörðinn Hannes Halldórsson.

Í viðtali við Morgunblaðið í dag segir Ólafur að hann horfi ekki til leikmanna í Pepsi-deildinni þegar kemur að því að styrkja liðið í janúar. Þeir eru einfaldlega ekki nógu góðir og er afhroð Vals gegn Bröndby í forkeppni Evrópudeildarinnar í sumar besta dæmið um það. Bröndby vann einvígið samanlagt, 10-0.

„Við munum pottþétt reyna að styrkja liðið í janúar en ég mun ekki horfa heim til Íslands hvað það varðar. Ég er búinn að fylgjast mjög vel með Pepsi-deildinni í sumar og ég tel að enginn leikmaður í deildinni myndi styrkja liðið mitt,“ segir Ólafur við Morgunblaðið, en hann var sérfræðingur Pepsi-markanna um deildina í byrjun tímabils.

„Munurinn á deildinni hér og heima er mjög mikill og það sást til að mynda vel þegar Valur steinlá fyrir Bröndby í Evropukeppninni í sumar,“ segir Ólafur Kristjánsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×