Víst er að nú sýður á öllum keipum innan Framsóknarflokksins. Karl Garðarsson, sem lýst hefur yfir stuðningi við Sigurð Inga, hélt því fram fyrr í dag að ekki væri gert ráð fyrir því í dagskrá að Sigurður Ingi talaði á Flokksþinginu. Hins vegar sé þar gert ráð fyrir klukkustundar langri tölu Sigmundar Davíðs. Vísir greindi skilmerkilega frá.
Eygló blæs til fundar vegna framgöngu Sigmundar Davíðs
Karl bætti síðan í á Facebook-vegg sínum og er ekki hægt að skilja hann öðru vísi en svo að þarna séu brögð í tafli; dagskráin sé beinlínis lögð þannig upp af hálfu Sigmundar Davíðs og hans mönnum. Hann segir að framkvæmdastjórn flokksins ákveði dagskrá flokksþings.
„Formaður þess heitir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Hann hefur neitað að halda þar fundi lengi. Ritari flokksins, Eygló Harðardóttir hefur ekkert með dagskrá þingsins að gera. Hún er formaður landsstjórnar sem sér um að boða miðstjórnarfundi og fer með vald miðstjórnar milli funda hennar. Í kvöld hefur verið boðað til landsstjórnarfundar þar sem framkvæmdastjórnin sinnir ekki starfi sínu,“ segir Karl á Facebook-síðu sinni.
Karli úthúðað á hans eigin Facebook-síðu
Vísir hefur reynt að ná tali af Eygló Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, til að fá nánari útskýringar á þessu en án árangurs.
Þessi færsla Karls hefur kallað fram gríðarlega reiði meðal Framsóknarmanna, einkum stuðningsmanna Sigmundar Davíðs, sem telja Karl hinn mesta óþurftarmann og vera að vinna flokknum verulegt ógagn með því að greina frá þessu því sem menn telja að eigi ekkert erindi út fyrir raðir flokksmanna.
