Innlent

Prófa rafrænar þinglýsingar

Sæunn Gísladóttir skrifar
Rafræn skjöl gætu tekið við af pappírsbunkum.
Rafræn skjöl gætu tekið við af pappírsbunkum. vísir/vilhelm
Í haust hefjast prófanir á rafrænum þinglýsingum, vonast er til þess að frumvarp um rafrænar þinglýsingar fari fyrir Alþingi í janúar og taki gildi 1. júní 2017. Þetta kom fram í máli Margrétar Hauksdóttur hjá Þjóðskrá hjá Haustráðstefnu Advania á föstudaginn.

Rafrænar þinglýsingar geta valdið þáttaskilum í heimi rafrænna löggerninga að mati Margrétar. Það sem fellur undir þetta eru fasteignir, ökutæki og skip. Í dag er þetta flókið kerfi, til að mynda er skrifað á þinglýst skjöl þegar skipt er um kröfuhafa. Eftir breytingar verður kröfuhöfum þinglýst rafrænt. Þinglýsingin mun þá eiga sér stað á sekúndum, ekki á mörgum dögum. Póstflutningar vegna þessa verða þá lagðir af. 

Fram kom í máli Margrétar að mikill vöxtur er í þinglýsingum. Fyrir hrun voru þinglýsingarnar flestar árið 2005 eða 92.721 talsins. Þær eru að taka kipp núna aftur eftir mikla lægð í hruninu og voru 38.776 í fyrra og á fyrstu sex mánuðum ársins voru þær 28.427. Þetta þýðir mikið álag á sýslumannsembættum, mest hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Ef yrði af rafrænum þinglýsingum eru hugmyndir um að eitt sýslumannsembætti sjái um þetta á landsvísu í staðinn fyrir öll níu.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir

7.200 skjöl bíða þinglýsingar sýslumanns

"Þetta er orðið svo mikið tjón" segir formaður Félags fasteignasala. Allt er stopp á fasteignamarkaðnum þar sem kaupsamningum hefur ekki verið þinglýst frá 1. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×