Fótbolti

Heimir: Höldum áfram að gera það sem hefur virkað

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Heimir Hallgrímsson er orðinn einn aðalþjálfari Íslands.
Heimir Hallgrímsson er orðinn einn aðalþjálfari Íslands. vísir/getty
Strákarnir okkar í fótboltalandsliðinu hefja leik í undankeppni HM 2018 annað kvöld þegar þeir mæta Úkraínu fyrir framan tóman Ólympíuleikvanginn í Kænugarði.

Íslenska liðið er búið að vera lengur saman en oft áður fyrir leik í undankeppni en það kaus að spila ekki vináttuleik heldur æfa saman í Frankfurt í nokkra daga áður en haldið var til Úkraínu.

Sjá einnig:Aron Einar: Hinir framherjarnir tilbúnir að sanna sig

„Stemningin er góð. Það er búið að fara vel um okkur. Þetta hefur verið afslappaðri undirbúningur en oft áður sem var tilgangurinn. Annars hefur nánast allt gengið upp,“ sagði Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari, á blaðamannafundi Íslands í morgun.

Heimir og strákarnir urðu fyrir áfalli á föstudaginn þegar ljóst var að Kolbeinn Sigþórsson gæti ekki tekið þátt í leiknum vegna meiðsla en hann er lang markahæstur núverandi hóps.

Kolbeinn verður ekki með.vísir/getty
Engu breytt

„Við breytum engu þó við missum Kolbein úr liðinu. Við spilum eins og við lögðum upp með sama hvort hann væri með eða ekki,“ sagði Heimir ákveðinn, en hvernig er mótherjinn?

„Úkraínska liðið er með mjög góða leikmenn sem spila í Meistaradeildinni og Evrópudeildinni. Þeir spila margir með sama liði þannig þeir þekkjast vel. Þeir leggja mikið á sig og eru agaðir.“

„Ég veit að stuðningsmenn Úkraínu voru óánægðir með gengið á EM en liðið spilaði mjög vel þar þó úrslitin féllu ekki með því. Ég hef ekkert nema góða hluti að segja um úkraínska liðið,“ sagði Heimir.

Leikurinn á morgun verður sá fyrsti sem Heimir stýrir sem aðalþjálfari íslenska landsliðsins án Lars Lagerbäcks. Breytingarnar verða ekki miklar á spilamennskunni fyrst um sinn.

„Við vinnum alveg eins og núna og við höfum gert síðustu fjögur árin. Ég er heppinn að hafa lært af Lars síðustu fjögur ár. Við höldum bara áfram að gera það sama sem virðist hafa virkað fyrir Ísland,“ sagði Heimir Hallgrímsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×