Innlent

Kveðst aldrei áður hafa fundið fyrir jafn sterkum stuðningi og velvild frá almenningi

Atli Ísleifsson skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, segir auknar líkur á því að ríkið taki yfir Arion banka og verði því eigandi þriggja banka. Hann segist sjálfur aldrei áður hafa fundið fyrir jafn sterkum stuðningi frá almenningi og ætlar að halda ótrauður sínu striki.

Sigmundur Davíð var gestur í Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Þar var sala Arion banka meðal annars til umræðu og taldi Sigmundur líkur á að ríkið myndi taka yfir bankann.

„Fjármálakerfið er að miklu leyti komið í hendur ríkisins – Arion banki ekki enn sem komið er, en það gæti vel farið svo líka,“ segir Sigmundur og kveðst þar vísa í fréttir um að illa hafi gengið að selja bankann. „Menn hafa haft frest til að selja hann með ákveðnum skilyrðum, ella gangi hann til ríkisins,“ segir Sigmundur Davíð.

Þess skal getið að Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði í október á síðasta ári að hann ætti ekki von áþví að ríkið myndi eignast Arion banka en Kaupþing, eigandi 87 prósenta hlutar í bankanum, hefur haft hann í söluferli og átti söluandvirðið að skiptast milli ríkissjóðs og Kaupþings eftir ákveðnum forsendum.

Allir jákvæðir sem ræða viðSigmund Davíð

Sigmundur var einnig spurður um hans eigin mál og hvort ekki væri hætta á að kosningabarátta Framsóknarflokksins komi til með að snúast um hann sjálfan en ekki málefnin verði hann áfram formaður flokksins.

„En ég hef ekki, frá því að ég byrjaði í stjórnmálum fundið eins mikinn, sterkan stuðning og velvild frá almenningi eins og síðustu misseri. Á meðan á öllu þessu gekk síðasta vor vissu margir ekki hvernig ætti að taka því en ég fer ekki út í búð núna eða á mannamót nema það komi til mín fólk til að ræða þessi mál og alltaf á jákvæðum nótum.“

Sigmundur Davíð segir fólk segja að nú þegar rykið hafi sest þá sjáist hvers konar aðför þetta hafi verið gegn honum. „Og alltaf hvatning: „Ekki gefast upp. Við treystum á að þú haldir áfram. Þú verður að halda áfram þeirri baráttu sem þú hefur leitt.“Ég hef oft heyrt: „Ef þú lofar að halda áfram þá skal ég kjósa Framsóknarflokkinn í fyrsta skipti.““




Fleiri fréttir

Sjá meira


×