Erlent

Segir samvisku sína vera hreina

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Dilma Rousseff í þingsal öldungadeildar brasilíska þingsins fyrr í gær.
Dilma Rousseff í þingsal öldungadeildar brasilíska þingsins fyrr í gær. Vísir/AFP
Dilma Rousseff, forseti Brasilíu, sagðist í gær saklaus af öllum ásökunum. Hún var sett tímabundið af á dögunum, grunuð um að hafa falsað tölur í fjárlögum Brasilíu til að fela rekstrarhalla ríkisins. „Samviska mín er algjörlega hrein. Ég hef ekki framið neinn glæp,“ sagði Rousseff í gær þegar öldungadeild Brasilíuþings réttaði yfir henni.

Þingmenn munu kjósa um það síðar í vikunni hvort eigi að reka Rousseff endanlega úr embætti eða skipa hana í embætti á ný.

Rousseff hóf vörn sína á því að minna þingmenn á að hún hafi verið endurkjörin árið 2014 með atkvæðum rúmlega 54 milljóna kjósenda. Hún sagðist þá alltaf hafa haft stjórnarskrána að leiðarljósi og minnti á fortíð sína sem baráttumaður gegn herforingjastjórninni sem réð ríkjum frá 1964 til 1985.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×