Innlent

Elliði hefur trú á að komist verði að sameiginlegri niðurstöðu

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum. Vísir
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, segist hafa trú á því að fundinn verði sameiginlegur flötur með þeim hljómsveitum sem hafa hætt við að koma fram á Þjóðhátíð vegna umdeildrar ákvörðunar lögreglustjórans. Hann útilokar ekki að einhverjar breytingar verði gerðar.

Elliði átti samtal með Unnsteini Manúel, söngvara hljómsveitarinnar Retro Stefson, og Páleyju Borgþórsdóttir lögreglustjóra í gær og ætlar að hitta Unnstein aftur, á formlegum fundi, í dag.

„Ég vil ekki með eitthvað upp úr tveggja manna tali. Einfaldlega vegna þess að þessi hittingur okkar var ekki hugsaður sem slíkur, allir gera sér grein fyrir því hvers vegna við ákváðum að ræða saman. Það er vegna þess að við deilum áhyggjum af kynferðislegu ofbeldi, við teljum að hægt sé að gera betur og við eins og allir aðrir viljum frekar sameina heldur en sundra og sameinast í baráttunni gegn þessu," segir Elliði í samtali við Vísi.

Einir vinsælustu listamenn þjóðarinnar sendu frá sér yfirlýsingu í gær þess efnis að þeir muni ekki koma fram á þjóðhátíð nema að stefnubreyting verði hjá yfirvöldum í Eyjum. það eru hljómsveitirnar Retro Stefson, Úlfur Úlfur, Agent Fresco ásamt Emmsjé Gauta, Sturlu Atlas, GKR og Dikta.

Elliði segir að í sameiningu verði reynt að komast að einhvers konar niðurstöðu.

„Við ætlum að halda áfram að leita að sameiginlegum flötum. Það er ömurlegur samfélagslegur vandi sem fólginn er í kynferðislegu ofbeldi. Ef Unnsteinn eða aðrir geta hjálpað okkur við að nálgast þetta mál, þá hlustum við að sjálfsögðu með virðingu á það. Ef við getum gert einhverjar breytingar þá skoðum við það af fullum huga. En enn og aftur, Vestmannaeyjar hefur ekkert boðvald í þessu máli. En kannski getum við orðið til þess að miðla málum," segir hann.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×