Innlent

Formaður SFS segir óalgegnt að kvóti sé færður milli kjördæma

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Jens Garðar Helgason, formaður og starfandi framkvæmdastjóri samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.
Jens Garðar Helgason, formaður og starfandi framkvæmdastjóri samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Vísir/GVA
HB Grandi hefur gert kaupsamning um að kaupa aflahlutdeildir af Hafnarnesi í Þorlákshöfn. Um er að ræða aflahlutdeildir í Bolfiski og svara til 1.600 þorskígildstonna. Kvótann á að flytja til Vopnafjarðar. Gunnsteinn R. Omarsson, bæjarstjóri Ölfuss, segir flutning kvótans vera slæm tíðindi fyrir bæjarfélagið.

Jens Garðar Helgason, formaður og starfandi framkvæmdastjóri samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, segir í hádegisfréttum Bylgjunnar að hreyfing á kvóta líkt og þessi sé óalgeng. „Ef við horfum á tímabilið 2004-2014 sem við höfum tölur fyrir þá er nánast lítil sem engin hreyfing í heildina milli svæða, milli kjördæma, á aflaheimildum. Þannig að það er nú reyndar orðið þannig að það er ekki mikil hreyfing á milli, þó það komi upp einstaka tilfelli, eins og í þessu,“ segir Jens Garðar.

Segir fyrirtæki í sjávarútvegi sýna samfélagslega ábyrgð

Í fréttum RÚV í gær kom fram að Hafnarnes hafi reynt að selja kvótann til aðila á svæðinu en án árangurs. Fyrirtækið stefnir á áframhaldandi rekstur næstu mánuði og mun leita allra leiða til að tryggja áframhaldandi starfsemi eftir það. Um 60 starfsmenn vinna hjá Hafnarnesi.

Aðspurður hvort að hann telji að fyrirtæki í sjávarútvegi sýni samfélagslega ábyrgð með tilfærslu kvóta, segir Jens að hann telji svo vera. „Fyrirtækin sem eru í sjávarútvegi í dag sýna mikla samfélagslega ábyrgð. Þau styðja og styrkja við sín samfélög. En auðvitað er það þannig að þegar aflaheimildir fara á milli staða, eins og í þessu tilfelli á milli Þorlákshafnar og Vopnafjarðar, þá vekur það alltaf upp þessa umræðu. Þessi umræða hefur komið reglulega upp en fyrirtækin í starfi sínu og vinnu í sínum samfélögum hafa sýnt mikla samfélagslega ábyrgð“ segir Jens Garðar.

Viðtalið við Jens Garðar má heyra hér að ofan. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×