Fótbolti

Varaforseti Barcelona: Eiður Smári er íslenska goðið hjá Barca

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen, markahæsti leikmaður íslenska landsliðsins frá upphafi, var fenginn til að þjálfa í fótboltaskóla Barcelona á Íslandi sem lýkur í dag en hann fór fram á Valsvellinum í samstarfi við Knattspyrnuakademíu Íslands.

Eiður Smári er eini Íslendingurinn sem hefur spilað með Katalóníurisanum en hann var á mála hjá Börsungum frá 2006-2009 og spilaði 112 leiki.

Sjá einnig:Eiður Smári verður ekki aðstoðarþjálfari Heimis hjá landsliðinu

„Við höfum lengi verið í sambandi við Eið Smára því hann er íslenska goðið hjá Barca. Það var ekki flókin ákvörðun fyrir okkur að vera í sambandi við hann þegar kom að þessum fótboltaskóna. Við vorum virkilega spenntir fyrir því að fá hann til að þjálfa í skólanum,“ sagði Carles Vilarrubí, varaforseti Barcelona, í viðtali við Vísi í Valsheimilinu í morgun.

Fór eftir gildum félagsins

Vilarrubí rölti um Valshöllina fyrir viðtalið í fylgd Guðna Bergssonar og Arnórs Guðjohnsen, föður Eiðs Smára. Spánverjinn sagði alla sem tengjast Barcelona bera Eiði Smára söguna vel.

„Það er litið á hann sem mjög kappsfullan og metnaðarfullan leikmann. Hann var topp atvinnumaður sem var fljótur að meðtaka okkar gildi og gaf allt sitt fyrir félagið,“ sagði Vilarrubí.

Sjá einnig:Eiður Smári vill sjá meira af Barcelona á Íslandi

„Ef þú minnist á Eið Guðjohnsen við einhvern í Barcelona hefur fólk bara góða hluti að segja. Hann spilaði vel og var algjörlega til fyrirmyndar utan vallar og það kann fólk að meta.“

„Hann er auðvitað bara einn af fjölmörgum frábærum fótboltamönnum sem hafa spilað fyrir Barcelona en Eiður lifir í minningunni hjá Barcelona sem metnaðarfullur leikmaður sem spilaði og fór eftir gildum félagsins,“ sagði Carles Vilarrubí.

Ítarlegt viðtal við varaforsetann verður í Fréttablaðinu á morgun.


Tengdar fréttir

Eiður Smári vill sjá meira af Barcelona á Íslandi

Eiður Smári Guðjohnsen átti sinn þátt í því að sannfæra Barcelona að koma með fótboltaskólann félagsins til Íslands og hann var einnig til í að hjálpa til þegar FCBEscola fór fram síðustu daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×