Innlent

„Af hverju ætti ég að fara í VIP-stúkuna og sötra kampavín?“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Guðni Th. Jóhannesson í stúkunni í Nice á mánudag.
Guðni Th. Jóhannesson í stúkunni í Nice á mánudag. vísir/vilhelm
Eins og Vísir greindi frá í gær verður nýkjörinn forseti, Guðni Th. Jóhannesson, á meðal áhorfenda á Stade de France á sunnudag þegar íslenska landsliðið mætir því franska í 8-liða úrslitum EM.

Hann var einnig á leiknum gegn Englendingum í Nice á mánudag en þá klæddist hann landsliðstreyjunni og var á meðal almennra stuðningsmanna en ekki í heiðursstúku vallarins líkt og Ólafur Ragnar Grímssson, forseti.

Guðni verður aftur á meðal almennra stuðningsmanna á sunnudag að því er fram kemur í viðtali við hann á CNN. Þá verður hann líka aftur í landsliðstreyjunni.

„Af hverju ætti ég að fara í VIP-stúkuna og sötra kampavín þegar ég get gert það hvar sem er?“ spyr Guðni fréttamann CNN í viðtalinu með bros á vör.

Árangur íslenska landsliðsins hefur vakið athygli um víða veröld enda hafa strákarnir okkar staðið sig með eindæmum vel.

„Auðvitað hefur þetta mikla þýðingu fyrir Íslendinga sem þjóð. Þetta sýnir að ef þú setur þér markmið, vinnur að því, hópurinn stendur saman og hefur aga þá getur allt gerst,“ segir Guðni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×