Fótbolti

Strákarnir komir aftur „heim“ til Annecy

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Vopnaðir verðir fylgja íslenska liðinu út um allt.
Vopnaðir verðir fylgja íslenska liðinu út um allt. vísir/vilhelm
Strákarnir okkar flugu aftur „heim“ til Annecy frá Marseille í morgun ásamt fjölmiðlamönnum en allur íslensku hópurinn lenti í Chambéry um klukkan tólf að staðartíma eftir stutt flug. Þaðan tók við 45 mínútna rútuferð til Annecy þar sem íslenska liðið dvelur og æfir.

Það var mátulega létt yfir íslensku leikmönnunum í dag þrátt fyrir vonbrigði gærdagsins þar sem Ísland missti sigur niður í jafntefli gegn Ungverjalandi þegar ungverska liðið skoraði jöfnunarmark á 88. mínútu. Sigur hefði nær örugglega komið okkar mönnum í 16 liða úrslitin.

Eftir klukkutíma hefst æfing hjá íslenska liðinu en aðeins verða nokkrir leikmenn sem æfa í dag. Aðrir verða í endurheimt.

Lars Lagerbäck og Eiður Smári Guðjohnsen verða til viðtals en Eiður Smári kom inn á í gær og var hársbreidd frá því að skora sigurmarkið á fjórðu mínútu í uppbótartíma.

Þrátt fyrir jafnteflið í gær er Ísland enn í fínni stöðu í F-riðli en með sigri á Austurríki í Saint-Denis fara strákarnir okkar í 16 liða úrslitin. Sigur gæti einnig tryggt Íslandi efsta sætið í riðlinum.

Jafntefli gæti einnig dugað íslenska liðinu eins og kemur fram hér en það er alls ekki útilokað að þrjú stig duga okkar mönnum til að komast upp úr riðlinum.

Uppfært klukkan 13:20 að íslenskum tíma

Ekkert varð af æfingu okkar manna í Annecy. Heimir, Lars og Eiður Smári veittu viðtöl en annars verður dagurinn nýttur til að hvíla lúin bein.


Tengdar fréttir

UEFA kærir Ungverja, Belga og Portúgala | Myndir

UEFA, Knattspyrnusamband Evrópu, hefur kært knattspyrnusambönd Ungverjalands, Belgíu og Portúgals fyrir ólæti stuðningsmanna liðanna á EM 2016 í Frakklandi í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×