Innlent

Fundu sakborning í fíkniefnamáli

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Fjórir menn hafa verið ákærðir vegna málsins.
Fjórir menn hafa verið ákærðir vegna málsins. Mynd/tollurinn
Hollensk kona hefur fengið stöðu sakbornings í umfangsmiklu fíkniefnamáli sem er fyrir dómi hér á landi. Fjórir menn hafa verið ákærðir vegna málsins og gætu átt yfir höfði sér allt að tólf ára fangelsi. Einn sakborninganna er Hollendingurinn Angelo Uyleman en mál hans hefur vakið athygli vegna andlegrar fötlunar hans.

Konan er hollenskur ríkisborgari og er fædd árið 1979. Hún kom hingað til lands ásamt Angelo með Norrænu í september síðastliðnum á bíl sem innihélt um 23 kíló af sterkum fíkniefnum.

Konan fór úr landi nokkrum dögum síðar en þá hafði lögreglan ekki handtekið sakborningana.

„Hún var ekki ákærð í málinu og er ástæðan sú að hún fannst aldrei á sínum tíma. Hún fannst í síðustu viku og það var tekin skýrsla af henni,“ segir Óli Ingi Ólason aðstoðar­saksóknari og bætir við að ekki sé vitað hvað gerist næst.

Ólíklegt sé að hennar mál bætist við sama mál þar sem það mundi kalla á tafir. „Það yrði ekki gott þar sem við erum með fjóra menn í farbanni.“

Ekki er vitað hvort konan verður framseld hingað til lands. „Það verður fyrst að leggja mat á skýrsluna.“ 



Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 8. júní 2016




Fleiri fréttir

Sjá meira


×