Innlent

Haldið nauðugri í starfi á hóteli

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Lögreglan rannsakar nú mál konu sem var haldið nauðugri í starfi á hóteli á höfuðborgarsvæðinu. Konan var þvinguð til að gista í herbergi með yfirmanni sínum sem hótaði henni með að annars yrði hún handtekin. Hún fékk tæpar 60 þúsund krónur í mánaðarlaun sem er langt undir lágmarkslaunum.

Konan kynntist manninum í heimalandi sínu skömmu fyrir áramót. Hann bauð henni starf á hóteli sem hann sagðist reka hér á höfuðborgarsvæðinu og þáði hún það. Maðurinn sagði við hana þegar hún kom til landsins að þar sem Ísland væri ekki í Evrópusambandinu þá þurfi hún atvinnuleyfi hér á landi.

Ekki sé hægt að útvega slíkt leyfi og hún sé ólögleg á landinu. Stúlkan þyrfti því að gista í herberginu hans á hótelinu til þess að lögreglan myndi ekki handtaka hana. Stúlkan samþykkti það en yfirmaður hennar sagði henni að yrði hún handtekin þá yrði hún send úr landi og aftur heimalands síns þar sem ekkert nema fátækt og atvinnuleysi myndi bíða hennar.

Konan sinnti margvíslegum störfum á hótelinu og var við vinnu nánast daglega í fimm mánuði. Fyrir þessa fimm mánuði í starfi fékk hún greiddar alls 295.000 krónur auk þess að fá sígarettur og brauð og álegg, eftir því sem kostur var. Þetta þýðir að konan fékk um 59.000 krónur í mánaðarlaun.

Það var ekki fyrr en konan átti leið í verslun Bónus í síðustu viku er hún sá þennan bækling frá ASÍ um réttindi fólks á vinnumarkaði. Hafði hún þá samband við ASÍ sem í kjölfarið fór með málið til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Lögreglan vildi ekki veita nánari upplýsingar um rannsókn málsins. Stúlkan er þó enn þá hér á landi en hefur lokið störfum á umræddu hóteli.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×