Íslenski boltinn

Yngstur til að skora fyrir Breiðablik | Sló met þjálfarans

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ágúst sló 28 ára gamalt met þjálfara síns þegar hann skoraði gegn Kríu.
Ágúst sló 28 ára gamalt met þjálfara síns þegar hann skoraði gegn Kríu. vísir/blikar.is/stefán
Breiðablik tryggði sér í gær sæti í 16-liða úrslitum Borgunarbikars karla með 0-3 sigri á Kríu á Valhúsahæðavelli.

Arnar Grétarsson, þjálfari Breiðabliks, skipti út öllu byrjunarliði sínu frá 1-0 sigrinum á KR á sunnudaginn og það tók Blika 62 mínútur að brjóta ísinn gegn 4. deildarliðinu.

Guðmundur Atli Steinþórsson skoraði fyrsta markið með frábæru skoti og þeir Ágúst Eðvald Hlynsson og Arnþór Ari Atlason bættu við mörkum áður en yfir lauk.

Ágúst Eðvald lék sinn fyrsta alvöru leik fyrir Breiðablik í gær og hélt upp á áfangann með laglegu marki. Hann varð þar með yngsti leikmaðurinn til að skora fyrir Breiðablik í opinberri keppni en Ágúst er 16 ára gamall og tveggja mánaða gamall (fæddur 28. mars 2000). Frá þessu er greint á stuðningsmannasíðu Breiðabliks, blikar.is.

Ágúst sló þar með 28 ára gamalt met þjálfara síns, Arnars Grétarssonar, sem skoraði sitt fyrsta meistaraflokksmark fyrir Breiðablik, gegn ÍR árið 1988, þegar hann var 16 ára og þriggja mánaða gamall. Viktor Unnar Illugason, núverandi leikmaður Þróttar, er þriðji yngsti leikmaðurinn sem skorar fyrir Breiðablik en hann gerði fjórða mark Blika í 4-1 sigri á ÍBV fyrir tíu árum.

Blikar mæta ÍA í 16-liða úrslitum bikarkeppninnar en næsti leikur þeirra í Pepsi-deildinni er gegn Stjörnunni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×