Innlent

Nýir eigendur Ásmundarsals ætla að tryggja áframhaldandi menningarstarfsemi í húsinu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Úr sýningarrými Listasafns ASÍ.
Úr sýningarrými Listasafns ASÍ. Vísir/Valli
Aðalheiður Magnúsdóttir og Sigurbjörn Þorkelsson hafa keypt Ásmundarsal við Freyjugötu sem um árabil hefur verið í eigu Listasafns ASÍ. Nýir eigendur ætla að leggja áherslu á að viðhalda lista- og menningarhlutverki hússins.

Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, formaður rekstrarstjórnar listasafnsins, sagði í samtali við Vísi á dögunum að rekstur húsnæðisins hafi verið of þungur baggi til að bera og því hafi Alþýðusamband Íslands ákveðið að selja Ásmundarsal.

Samband íslenskra myndlistarmanna lýsti nokkru síðar yfir áhyggjum um að húsið yrði ekki nýtt undir list- og menningarstarfsemi líkt og Ásmundur Sveinsson myndhöggvari, sem lét reisa húsið, lagði áherslu á.

Um 1.500 manns skrifuðu undir áskriftarsöfnun þar sem skorað var á Alþýðusamband Íslands og rekstrarfélag Listasafns ASÍ að endurskoða afstöðu sína hvað varðar Ásmundarsal.

Nýjir eigendur hafa nú tekið við og hyggjast þeir leggja áherslu á list- og menningartengda starfsemi í húsnæðinu.

„Við munum jöfnum höndum styðja við unga hönnuði og listamenn auk þess að vera í nánu samstarfi við virta og þekkta listamenn bæði innlenda og erlenda og skapa þannig fjölbreytta og nútímalega listamiðstöð,“ segir Aðalheiður Magnúsdóttir, annar kaupanda Ásmundarsals.

„Alþýðusambandið fagnar mjög áformum Aðalheiðar og Sigurbjörns að reka áfram listastarfsemi í Ásmundarsal við Freyjugötu,“ segir Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir formaður rekstrarstjórnar Listasafns ASÍ. „Þessi niðurstaða er fullkomlega í takt við þær væntingar sem ASÍ hafði þegar húsið var sett í söluferli.“

Listasafn ASÍ verður með starfsemi í húsinu fram á haust þegar nýju eigendurnir taka við starfseminni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×