Innlent

Guðni er enn að íhuga framboð: Segist ekki kunna við klækjabrögð Ólafs

Birgir Olgeirsson skrifar
Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur.
Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur.
Sagnfræðingurinn Guðni Th. Jóhannesson hefur ekki tekið ákvörðun um hvort hann bjóði sig fram í komandi forsetakosningum. Guðni hafði lofað þeim sem hvatt hafa hann til framboðs að íhuga málið og hafði gefið út að hann myndi koma undan feldi sínum í sumarbyrjun. Nú á sumardeginum fyrsta birtir hann færslu á Facebook-síðu sinni þar sem hann greinir frá því að það fyrsta sem hann sá þegar hann gægðist undan feldi sínum var Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.

Ólafur Ragnar boðaði eftirminnilega til blaðamannafundar á Bessastöðum síðastliðinn mánudag þar sem hann tilkynnti þjóðinni að hann ætlar að sækjast eftir endurkjöri í forsetakosningunum í sumar. Nái Ólafur Ragnar kjöri verður það hans sjötta kjörtímabil í embætti forseta Íslands. Ef hann situr út kjörtímabilið hefur hann verið í embætti forseta Íslands í 24 ár.

Guðni hefur þó ekki útilokað framboð og segist á Facebook-síðu sinni ætla að hugsa málið aðeins lengur.

Í viðtali við DV í dag segist Guðni haf kosið Ólaf Ragnar árið 1996 en segir að forsetinn fengi ekki atkvæði frá sér í dag. „Forsetinn þarf að segja satt,“ segir Guðni og nefnir þar að Ólafur Ragnar sagði við upphaf ferils síns að átta til tólf ár séu nægur tími í embætti en stefnir  nú á aldarfjórðungssetu. „Hér er ekki aðalatriðið að forseti vilji sitja áfram en ég kann ekki við þessi klækjabrögð þótt sumum finnist þau eflaust tær snilld,“ segir Guðni við DV.


Tengdar fréttir

Þarf spretthörku til að sigra Ólaf Ragnar

Tveir hafa hætt við forsetaframboð eftir að Ólafur Ragnar Grímsson tilkynnti um endurkjör. Viðmælendur Fréttablaðsins eru sammála um að framboð Ólafs gerbreyti landslaginu. Guðni Th. Jóhannesson, sem hugleitt hefur framboð, kynnir ákvörðun sína síðar í vikunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×