Innlent

Útilokar ekki að rífa þurfi húsnæðið við Kirkjusand

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Húsnæði Íslandsbanka á Kirkjusandi liggur undir miklum skemmdum vegna raka og myglusvepps og er ekki útilokað að það þurfi að rífa það. Bankinn hefur ákveðið að flytja höfuðstöðvar sínar í Kópavog.

Í upphafi árs kom í ljós að í byggingarefnum hússins er að finna myglusvepp sem hafði myndast út frá rakaskemmdum. Verkfræðistofan Efla var fengin til að meta hversu umfangsmiklar skemmdirnar eru. Þá voru finnskir sérfræðingar fengnir til að aðstoða við vinnuna. Nú er orðið ljóst að húsið er mjög illa farið.

„Það þarf að gera við húsið töluvert mikið og þess vegna ákváðum við að höfuðstöðvar bankans að þeim væri betur komið fyrir á nýjum stað,“ segir Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka.

Höfuðstöðvarnar verða fluttar í Norðurturninn við Smáralindina í Kópavogi. Íslandsbanki á húsið við Kirkjusand og óvíst er hvað gert verður við það.

„Nú verður það bara skoðað í framhaldinu, þegar við erum búin að taka þessa ákvörðun, hvers konar lagfæringar við þurfum að gera á húsinu, eða hvort við förum í þær viðgerðir. Framhaldið er bara óljóst,“ segir Birna. Hún segir ekki útilokað að rífa þurfi húsið.

Birna segir að fimmtíu af 400 starfsmönnum bankans hafi verið fluttir úr höfuðstöðvunum vegna myglunnar. Nokkrir starfsmenn hafi fundið fyrir einkennum vegna myglunnar og því ekki getað unnið í húsinu. 

Starfsemi höfuðstöðvanna hefur verið á fjórum stöðum undanfarið en verður sameinuðuð í haust þegar flutt verður í Norðurturninn. Húsnæðið þar er töluvert minna en það munar um fimm þúsund fermetrum.

Íslandsbanki leggur undir sig sjö af fimmtán hæðum turnsins. Aðspurð hvort að starfsfólki verði fækkað samhliða breytingunum segir Birna að það sé ekkert sem hún sjái fyrir sér sérstaklega í dag.


Tengdar fréttir

Frá Kirkjusandi í Kópavog

Á stefnufundi starfsmanna Íslandsbanka sem fram fór fyrr í dag var tilkynnt að höfuðstöðvar Íslandsbanka munu á haustmánuðum flytjast í Norðurturninn í Kópavogi frá Kirkjusandi þar sem höfuðstöðvar bankans hafa verið undanfarin 20 ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×