Innlent

Íslenskur vopnasali í Panama-skjölunum

Bjarki Ármannsson skrifar
Íslenski auðkýfingurinn Loftur Jóhannesson, sem búsettur er í Bandaríkjunum, er nafngreindur í Panama-skjölunum svokölluðu.
Íslenski auðkýfingurinn Loftur Jóhannesson, sem búsettur er í Bandaríkjunum, er nafngreindur í Panama-skjölunum svokölluðu. Vísir/EPA
Íslenski auðkýfingurinn Loftur Jóhannesson, sem búsettur er í Bandaríkjunum, er nafngreindur í Panama-skjölunum svokölluðu. Að því er kemur fram í umfjöllun blaðamannasamtakanna ICIJ tengdist Loftur fjórum aflandsfélögum á Bresku Jómfrúaeyjum og Panama.

Loftur er með ríkustu núlifandi Íslendingum. Hann starfaði lengi sem flugmaður erlendis en undir lok kalda stríðisins greindu erlendir fjölmiðlar frá því að hann hefði haft aðkomu að vopnasölu fyrir bandarísku leyniþjónustuna CIA.

Loftur neitar því að hafa nokkurn tímann unnið fyrir leyniþjónustuna og talsmaður hans ítrekar það í samtali við ICIJ.  

Þýska tímaritið Der Spiegel fullyrti þó árið 1992, í frétt sem unnin var upp úr skjölum föllnu austur-þýsku leynisþjónustunnar Stasi, að Loftur hefði verið milliliður milli vopnasala í Austur-Þýskalandi og CIA í stórfelldum vopnaviðskiptum.

Árið 1987 greindi breska blaðið The Sunday Times svo frá því að Loftur hefði selt stjórnarher Saddam Hussein í Írak tólf skriðdreka. Hann ku hafa gengið undir heitinu „Íslendingurinn.“

Loftur er fæddur árið 1930 og með lögheimili í Reykjavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×