Innlent

Þingrofskjal Sigmundar Davíðs fæst ekki afhent

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Forsætisráðherra gekk á fund forsetans á þriðjudaginn.
Forsætisráðherra gekk á fund forsetans á þriðjudaginn. VÍSIR/Stefán
Forsætisráðuneytið hafnar því að afhenda afrit af skjali því sem Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, segir Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og starfsmenn ráðuneytis hans hafa haft meðferðis á fund forseta á þriðjudaginn var.

Í synjun forsætisráðuneytisins segir að skjalið teljast til vinnugagna og að slík gögn séu undanþegin upplýsingarétti almennings samkvæmt upplýsingalögum. Vinnugögn teljist gögn sem stjórnvöld eða lögaðilar hafi „ritað eða útbúið til eigin nota við undirbúning ákvörðunar eða annarra lykta máls.“

Forsetinn hefur sagt að á fyrrgreindum fundi hafi forsætisráðherra óskað eftir því að forsetinn samþykkti tillögu um þingrof. „Formleg tillaga um þingrof var hvorki borin upp á fundinum né kynnt forseta eins og skilja mátti af ummælum forseta Íslands að fundi loknum,“ segir hins vegar í frétt sem sett var inn á vef forsætisráðuneytisins nokkru eftir fundinn í fyrradag.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 7. apríl. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×