Fyrsti leikur átta liða úrslita Lengjubikars karla fer fram í kvöld þegar Víkingur R. og Leiknir R. mætast á Víkingsvellinum. Leikurinn hefst klukkan 18.00 og fer fram á gervigrasvelli þeirra Víkinga.
Víkingar unnu sinn riðil eftir að hafa unnið fjóra fyrstu leiki sína með markatölunni 11-4. Víkingsliðið tapaði reyndar lokaleiknum sínum á móti Skagamönnum en var þá búið að vinna riðilinn.
Leiknismenn urðu í öðru sæti í sínum riðli á eftir FH en töpuðu ekki leik. Þeir unnu þrjá leiki og gerðu tvö jafntefli í riðlinum en Leiknisliðið fékk aðeins á sig tvö mörk í leikjunum fimm.
Leiknismenn hafa þegar unnið eitt undirbúningsmót á tímabilinu því liðið vann 4-1 sigur á Val í úrslitaleik Reykjavíkurmótsins. Valsmenn höfðu þá slegið út Víkinga í undanúrslitunum.
Víkingur fór í undanúrslit Lengjubikarsins í fyrravor en Leiknir hefur ekki komist í undanúrslit Lengjubikarsins áður.
Það nægir ekki að segja bara Víkingur og Leiknir í sumar því bæði félög eru með nafna í sinni deild á komandi tímabili.
Víkingur Reykjavík spilar nefnilega með Víkingi Ólafsvík í Pepsi-deildinni í sumar og Leiknir Reykjavík spilar með Leikni Fáskrúðsfirði í 1. deildinni.
