Íslenski boltinn

Abel Dhaira látinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Abel Dhaira, 1987-2016.
Abel Dhaira, 1987-2016. vísir/andri marinó
Abel Dhaira lést í dag eftir stutta baráttu við krabbamein, 28 ára að aldri. Frá þessu er greint á heimasíðu ÍBV.

Abel kom til ÍBV fyrir tímabilið 2011 og varði mark Eyjaliðsins 58 leikjum í Pepsi-deildinni. Hann lék 13 leiki í deild og bikar á síðasta tímabili.

Abel greindist með krabbamein í kviðarholi seint á síðasta ári og var skorinn upp vegna meinsins í heimalandi sínu á aðfangadag í fyrra.

Hann kom til Íslands í byrjun árs og hóf þá læknismeðferð. Meinið hafði hins vegar dreift sér víða um líkama Abels svo ekki var við ráðið.

Eyjamenn settu af stað fjársöfnun fyrir Abel sem gekk vonum framar en fjölmörg félög gáfu m.a. sektarsjóði sína. Þann 6. mars fór svo fram styrktarleikur fyrir Abel þar sem úrvalslið Pepsi-deildarinnar mætti nú- og fyrrverandi leikmönnum ÍBV.

Auk tímans á Íslandi lék Abel í heimalandinu (Úganda), Kongó og Tansaníu á ferlinum. Þá lék hann 11 landsleiki fyrir Úganda.

Íþróttadeild 365 sendir aðstandendum Abels sínar dýpstu samúðarkveðjur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×