Fótbolti

Neymar vill spila á Ólympíuleikunum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Neymar er þjóðhetja í Brasilíu.
Neymar er þjóðhetja í Brasilíu. vísir/getty
Neymar, framherji Barcelona á Spáni, langar mikið að spila með brasilíska landsliðinu á Ólympíuleikunum sem fram fara í Ríó í ágúst. Þó Neymar sér klár er alls óvíst hvort Barcelona taki vel í þá hugmynd þar sem leikmaðurinn á fyrir höndum annað stórmót í sumar.

Annað árið í röð verður Suður-Ameríkukeppnin haldin en að þessu sinni er um að ræða 100 ára afmæliskeppni sem haldin verður í Bandaríkjunum í júní.

Neymar vill fresta komu sinni til Katalóníu og spila með brasilíska landsliðinu á Ólympíuleikunum. Brasilía hefur aldrei unnið Ólympíugull í fótbolta karla né kvenna og Neymar vill ólmur vinna fyrsta gullið og það á heimavelli.

„Það væri draumur að spila aftur á Ólympíuleikunum. Það væri mikill heiður að spila fyrir Brasilíu aftur á leikunum, sérstaklega þar sem þeir fara fram á heimavelli,“ segir Neymar í viðtali við Goal.com, en hann var í liði Brasilíu sem tapaði fyrir Mexíkó í úrslitaleik ÓL 2012 í Lundúnum.

„Mig langar mikið að vera með. Ekki bara til að vinna gullið sem Brasilíu vantar heldur langar mig bara að gera þetta fyrir þjóð mína,“ segir Neymar.

„Það er erfitt fyrir mig að gefa brasilísku þjóðinni einhver loforð. Eina sem ég get fullvissað fólkið um er að ég geri alltaf mitt besta þegar ég klæðist brasilísku treyjunni þannig vonandi komumst við eins langt og hægt er,“ segir Neymar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×