Erlent

Endurræsa kjarnakljúf

Samúel Karl Ólason skrifar
James Clapper.
James Clapper. Vísir/EPA
James Clapper, yfirmaður leyniþjónustna Bandaríkjanna, segir yfirvöld Norður-Kóreu hafa endurræst kjarnakljúf sinn. Hann sagði einnig að auðgunarstöð þeirra hafi verið endurbætt. Í raun gætu þeir komið sér upp birgðum af vopnvæddu úraníumi á einungis nokkrum vikum.

Það mætti svo nota til að framleiða kjarnorkusprengjur. Norður-Kóreumenn tilkynntu árið 2013 að þeir myndi taka þessi skref og nú virðast þeir hafa framfylgt þeirri tilkynningu.

Þetta sagði Clapper við hermálaeftirlitsnefnd öldungaþings Bandaríkjanna nú í dag. Þar ræddi hann þær ógnir sem steðja að Bandaríkjunum.

Einungis nokkrir dagar eru liðnir síðan geimflaug var skotið á loft í Norður-Kóreu, en talið er að um tilraun hafi verið að ræða. Tilgangur hennar hafi verið að þróa langdrægar kjarnorkuflaugar.

Í frétt Reuters fréttaveitunnar segir þó að hönnun geimflaugarinnar hafi verið nánast sú sama og þeir skutu á loft árið 2012. Sérfræðingar sem fréttaveitan ræddi við segja hana byggja á tækni frá tímum Sovétríkjanna og að yfirvöld í Pyongyang séu enn mörg ár frá því að takast ætlunarverk sitt.


Tengdar fréttir

Ætla að skjóta á loft gervihnetti

Talið er að skotið sé eingöngu tilraun stjórnvalda til að þróa eldflaug sem gæti flutt kjarnorkuvopn til meginlands Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×