Innlent

Fjörutíu ár í dag frá Kópaskersskjálfta

Kristján Már Unnarsson skrifar
Fjörutíu ár eru í dag liðin frá Kópaskersskjálftanum, sem reið yfir þann 13. janúar árið 1976. Miklar skemmdir urðu á húsum í þorpinu, vatns- og holræsalagnir rofnuðu, og voru íbúarnir fluttir brott í norðan stórhríð við illan leik. Skjálftinn mældist 6,4 stig og átti upptök undir hafsbotni skammt undan Kópaskeri.

Hrina smærri skjálfta hafði gengið yfir sem tengd var upphafi Kröfluelda þremur vikum fyrr. Svo sterkar minningar eru bundnar Kópaskersskjálftanum að þar er rekið jarðskjálftasetur þar sem þessum örlagaríku dögum í janúar 1976 eru gerð sérstök skil.

Skjálftinn var rifjaður upp í þættinum „Um land allt“ á Stöð 2 í fyrra, sem fjallaði um Kröfluelda og Kópaskersskjálftann. Þar lýsti Hólmfríður Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Skjálftasetursins, upplifun sinni á jarðskjálftanum og áhrifum hans á íbúana.

„Þetta var mjög erfitt og margir urðu mjög skelfdir, sérstaklega börn,“ sagði Hólmfríður meðal annars.

Jarðskjálftasetrið er til húsa þar sem áður var grunnskóli á Kópaskeri.Mynd/Stöð 2.
Þess má geta að íbúar Öxarfjarðar koma saman til rabbfundar í Skjálftasetrinu á Kópaskeri í kvöld, - ekki til að minnast skjálftans, - heldur er fundurinn liður í verkefninu „Brothættar byggðir“ til að ræða um leiðir til verjast frekari fólksfækkun í héraðinu. 

Árið 1976 bjuggu 138 manns á Kópaskeri. Núna eru 114 manns skráðir þar til heimilis. Ef fólksfjölgun þar hefði fylgt mannfjöldaþróun á landinu á þessum 40 árum ættu yfir 200 manns að búa á Kópaskeri í dag því á sama tíma fjölgaði íbúum landsins alls um 50%, úr 219 þúsund í 329 þúsund. 


Tengdar fréttir

40 ár frá upphafi Kröfluelda

Fjörutíu ár eru í dag frá upphafi Kröfluelda, hrinu eldgosa sem stóð yfir í níu ár norðan við byggðina í Mývatnssveit.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.