Borgarstjóri Temixco, Gisela Mota, fannst í gær myrt á heimili sínu, einum degi eftir að hafa verið svarin í embætti.
Fylkisstjóri svæðisins greindi frá þessu á Twitter-reikningi sínum í morgun.
Mota var 33 ára gömul og tók formlega við embætti borgarstjóra á nýársdag. Mexíkóska blaðið El Universal segir að fjórir vopnaðir menn hafi ráðist inn á heimili hennar um klukkan 07:30, ráðist þar á hana og skotið í höfuðið. Bráðaliðar sem sendir voru á vettvang úrskurðuðu hana látna.
Þeir grunuðu flúðu af vettvangi á sendiferðabíl en lögreglan hafði hendur í hári þeirra. Tveir féllu í skotbardaga við lögreglumenn.
Mota var myrt í borginni Temixco sem er staðsett um hundrað kílómetra sunnan af höfuðborg landsins, Mexíkóborg. Um 100 þúsund manns búa í borginni og er hún fjórða fjölmennasta borg Morelosfylkis.
Höfuðborg fylkisins er talin ein hættulegasta borg landsins þar sem gengi glæpamanna ráða lögum og lofum. Fjöldi borgarstjóra í Mexíkó var myrtur á síðasta ári af meðlimum slíkra glæpahópa.
Myrt daginn eftir að hún tók við embætti
Stefán Ó. Jónsson skrifar
