Stjórnvöld á Ítalíu hafa hafið rannsókn á dauða fimm kvenna sem létust þar í landi í síðustu viku. Konurnar voru á þrítugs- og fertugsaldri og voru allar þungaðar þegar þær létust.
Rannsóknarteymi á vegum heilbrigðisyfirvalda hafa verið send á fjögur sjúkrahús í norðurhluta landsins. Dánarorsakir kvennanna liggja fyrir en hafa þó vakið upp áhyggjur stjórnvalda og innfæddra enda er dánarhlutfall ungbarna og óléttra kvenna þar með því lægsta í heimi.
Konurnar voru allar komnar langt á leið, eða um fimm til sjö mánuði. Nýlegasta dauðsfallið var á nýársdag þegar hin þrítuga Giovanna Lazzari var send í bráðakeisaraskurð. Hún var lögð inn á sjúkrahús tveimur dögum áður vegna hita. Hún var þunguð af sínu þriðja barni, en því tókst ekki að bjarga.
Í sömu viku lést Marta Lazzarin, 35 ára ferðabloggari. Hún var flutt á sjúkrahús vegna kviðverkja og hita, en lést sama dag af völdum hjartaáfalls. Hún var komin sjö mánuði á leið, en ekki tókst að bjarga barninu. Þá fékk Angela Nesta einnig hjartaáfall, skömmu eftir fæðingu. Anna Massingan lést á jóladag eftir bráðakeisara. Fimmta konan hefur ekki verið nafngreind, en hún lést á heimili sínu 29. desember.
Samkvæmt Guardian hafa fjögur dauðsföll tengd þungun verið skráð árlega undanfarin fimm ár. Yfir hundrað þúsund börn fæðast á Ítalíu á ári hverju.
